Hátt í tíu með stöðu sakbornings

„Við erum að skoða nokkur ár aftur í tímann,“ segir …
„Við erum að skoða nokkur ár aftur í tímann,“ segir Grímur. Samsett mynd

Hátt í tíu eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu er tengist umfangsmikilli aðgerð sem áttatíu starfsmenn lögreglu tóku þátt í á þriðjudag. 

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.

Aðgerðirnar voru vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.

Grímur segir rannsóknina nú í hefðbundnum farvegi. Yfirheyrslur er hafnar og munu standa yfir í dag. 

Skoða nokkur ár aftur í tímann

Átta voru handtekin í tengslum við málið og voru sex úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald í gær, þrjár konur og þrír karlar. Aðspurður segir Grímur ekki útilokað að fleiri verði handteknir í tengslum við málið. 

„Við erum að skoða nokkur ár aftur í tímann,“ segir Grímur spurður hvað lögreglu gruni að ólöglega starfsemin nái langt aftur.

Hvers vegna var farið í þessa stóru aðgerð í fyrradag?

„Þessi tímasetning, það er ekkert sérstakt við hana annað en að þarna er undirbúningur kominn á það stig og upplýsingar með þeim hætti að við gætum farið í aðgerðina.“

Hluti af því sakarefni sem var til skoðunar hjá lögreglu varðaði sölu og framleiðslu fíkniefna. Að sögn Gríms var engin slík haldlagning í þessum aðgerðum.

Barnaverndaryfirvöld í þremur sveitarfélögum

Fjöldi lögregluembætta og stofnana kom að aðgerðinni á þriðjudag, þar á meðal barnaverndaryfirvöld í þremur sveitarfélögum.

Grímur segir engan grun um að börn hafi verið fórnarlömb mansals. Leitað hafi verið til barnaverndaryfirvalda vegna barna sem tengjast þeim sem séu grunaðir og meint fórnarlömb í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka