Kveðst hafa borgað 9 milljónir til að komast til Íslands

Maðurinn segist hafa flutt matvæli af matvælalager í Sóltúni á …
Maðurinn segist hafa flutt matvæli af matvælalager í Sóltúni á veitingastaði í eigu Davíðs.

Víetnamskur viðmælandi fréttaþáttarins Kveiks á RÚV segir að hann hafi greitt Davíð Viðarssyni, eða Quang Le 65.000 dollara eða því sem nemur tæpar níu milljónir króna til að komast til Íslands.

Þá hafi hann greitt aukalega 60.000 dollara til að fá fjölskylduna til landsins. Hleypur heildar upphæð því nærri 17 milljónum króna. 

Eins og fram hefur komið er Davíð einn þeirra sem handteknir hafa verið í tengslum við rannsókn lögreglu á mansali, peningaþvætti og skipulagðri glæpastarfsemi.  

„Ég greiddi atvinnuveitanda mínum 65 þúsund dollara þegar ég kom til landsins og aukalega 60 þúsund dollara þegar konan mín og börnin komu,“ er haft eftir Víetnömskum manni sem kallar sig Blæ því hann vill ekki koma fram undir nafni. 

„Allir þurfa að greiða,“ segir Blær.  Fram kemur í Kveik að hundruð Víetnama hafi komið til landsins fyrir tilstilli Davíðs. 

Blær lýsir því í þættinum að hann hafi þurft að vinna  langa vinnudaga árum saman í fyrirtækjum Davíðs.  

Færði mat af lagernum á veitingastaði 

Blær segir ennfremur að hann hafi sótt mat á matvælalager í Sóltúni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur lokaði vegna óheilnæma geymslu matvæla. Farið hafi verið með matvörur á veitingastaði Wok on og Pho Vietnam. 

Sjálfur hefur Davíð sagt að um væri að ræða gamlan lager og að matvælin sem þar voru geymd væru ekki ætluð til neyslu. Hins vegar kemur fram í Kveik að fimm tonn af þessum matvælum hafi nýlega verið flutt inn til landsins.

Þá segir Blær að fólk hafi dvalið á lagernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert