Um hálfsjöleytið í gærkvöldi var tilkynnt um einstakling sem hafði lokað sig inni á salerni í verslun í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglan fór á vettvang og sinnti málinu, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um yfirstandandi innbrot í hverfi 105 í Reykjavík upp úr klukkan þrjú í nótt.
Einn var handtekinn á vettvangi og var hann vistaður í fangaklefa.
Tilkynnt var um tilraun til innbrots í hverfi 109 um níuleytið í gærkvöldi. Lögreglan sinnti málinu og í ljós kom að einstaklingnum hafði ekki tekist ætlunarverk sitt.
Um svipað leyti barst tilkynning um einstakling sem gekk á móti umferð á miðri umferðargötu en hann var farinn þegar lögreglan kom á vettvang.
Umferðarslys varð í Breiðholti á níunda tímanum í gærkvöldi. Tvær bifreiðar skemmdust en engin slys urðu á fólki.
Um sjöleytið í gærkvöldi var tilkynnt um háværan hvell í hverfi 105 en ekkert kemur meira fram um málið í dagbók lögreglunnar.
Um hálfníuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um ölvaðan einstakling til vandræða á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglan sinnti málinu og vísaði honum á brott.
Tilkynning barst upp úr klukkan hálftíu í gærkvöldi um tvo einstaklinga að áreita fólk við verslun í Breiðholti. Þeir voru á bak og burt þegar lögregluna bar að garði.
Um eittleytið í nótt barst tilkynning um minniháttar líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur og um klukkutíma síðar var tilkynnt um ferðamann í vandræðum í miðbænum. Lögreglan sinnti báðum málum.