„Mesta hagsmunamál þjóðarinnar“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þótt enn séu nokkrir hnútar óleystir þá bindi hún vonir við að takist að skrifa undir nýja kjarasamninga í dag.

Katrín átti fund með forkólfum breiðfylkingar stéttafélaga í Stjórnarráðinu í dag þar sem hún kynnti fyrir þeim aðkomu stjórnvalda að kjarasamningnum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sögðu í samtali við mbl.is eftir fundinn að þau væru ánægð með aðkomu stjórnvalda en bentu á að nokkur sveitafélög yrðu að stíga skrefið til fulls og samþykkja gjaldfrjálsar máltíðir skólabarna. Þau segja að undirritun á samningi velti á afgerandi svari sveitarfélaganna um þeirra aðkomu.

Allir að vinna að því markmiði 

„Nú verður það bara að koma í ljós,“ segir Katrín aðspurð hvort skrifað verði undir nýja kjarasamninga í dag eins og vonir standi til.

„Ég held að allir aðilar séu að vinna að því markmiði. Það eru ákveðnir lausir endar sem á eftir að hnýta en ég tel það gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið ef það næst að skrifa undir þennan fyrsta langtímasamning sem hefur það skýra markmið að styðja við verðstöðugleika og skapa forsendur til vaxtalækkunar,“ segir Katrín við mbl.is.

Hún vonast til þess að fleiri fylgi í kjölfarið og það sé stórmál ef tekst að landa samningum.

„Ég ætla að leyfa mér að vona að þetta geti farið að klárast þótt enn séu nokkur mál ókláruð,“ segir forsætisráðherra.

Vinna í ná sameiginlegri yfirlýsingu

Spurð hvort þessir lausu endar sem hún talar um varði aðkomu sveitarfélaganna segir hún:

„Já við höfum verið að vinna í því að ná saman um sameiginlega yfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga og ég vona bara að það takist. Ég hef verið í miklu sambandi við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitafélaga um þessi mál.“

Eins og áður segir er breiðfylkingin ánægð með útspil stjórnvalda til að greiða fyrir gerð kjarasamninganna.

„Þetta kemur ekkert eitthvað ofan af himnum. Þetta er pakki sem byggir á margra mánaða vinnu og samtölum og hann er hugsaður þannig að hann gagnist allri heildinni. Þetta er mikið tækifæri og er mesta hagsmunamál þjóðarinnar að samningar náist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert