„Munaði ansi litlu að það færi að gjósa“

Hraun rann inn í Grindavík í janúar.
Hraun rann inn í Grindavík í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, segir að það haldist áfram að byggjast upp þrýstingur í sama kvikusöfnunarsvæði og líklegasta atburðarrásin er gos eða kvikugangur á svipuðum slóðum og hefur verið.

Til tíðinda dró á Reykjanesskaganum um síðustu helgi en þá fór af stað kvikuhlaup. Menn voru viðbúnir eldgosi en svo fór ekki. Síðan þá hefur kvikumagn undir Svartsengi haldið áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Langminnstur allra atburða

Freysteinn segir að atburðurinn á laugardaginn hafi verið langminnstur allra sem hafa orðið á þessu svæði en síðast gaus 8. febrúar og var það sjötta gosið á Reykjanesskaganum á rétt tæpum þremur árum.

„Atburðurinn er svo lítill að það er líklega búið að yfirvinna þá kvikusöfnun síðan hann varð um helgina. Staðan er því mjög svipuð og hún var í síðustu viku,“ segir Freysteinn.

Freysteinn segir að menn verði að vera viðbúnir því að það geti komið til eldgoss með mjög skömmum fyrirvara í þessari viku eða þeirri næstu.

Lágmarks þrýstingur sem þarf til ansi lítill

„Atburðurinn á laugardaginn sýnir okkur kannski að lágmarks þrýstingur sem þarf til að koma atburði af stað er ansi lítill. Það munaði ansi litlu að það kæmi eldgos. Kvikan fór af stað en gosið fór ekki af stað.“

Freysteinn segir að menn verði að vera viðbúnir því að …
Freysteinn segir að menn verði að vera viðbúnir því að það geti komið til eldgoss með mjög skömmum fyrirvara í þessari viku eða þeirri næstu. mbl.is/Sigurður Bogi

Freysteinn segir að um leið og kvika byrji að streyma út kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þá byrji þrýstingur að falla í því. Hann segir að það sé bara spurning um hversu mikið hann fellur miðað við hvort kvikan nái upp.

Ákveðið haft fyrir kvikuna á leið upp á yfirborð

„Þegar kvikan er safnast líklega á um 5 kílómetra dýpi og fer af stað þá hefur hún ákveðin uppdrifskraft vegna þess að hún er léttari í sér heldur en jarðskorpan í kring. Hún leitar upp eftir að hún er komin inn í kvikuganginn og þá er auðveldara fyrir hana að ferðast aðeins ofar í jarðskorpuna,“ segir Freysteinn.

Hann segir að það sé ákveðið haft fyrir kvikuna á leiðina upp á yfirborð sem séu tveir síðustu kílómetrarnir. Þá sé hún orðin þyngri heldur en jarðskorpan í kring nema að hún byrji að ná að losa kvikugös.

„Það gerist mikið í efstu kílómetrunum en hún náði því ekki á laugardaginn. Það er frekar auðvelt fyrir kvikuna að komast upp á minna dýpi frá þessu kvikusöfnunarsvæði en síðan þarf að vera nægilegur þrýstingur til að koma henni upp á yfirborðið áður en eldgos hefst. Það varð ekki nægur þrýstingur á laugardaginn til að koma kvikunni alla leið upp á yfirborðið.“

Viðbúin eldgosi þó síðar verði

Freysteinn segir að menn eigi að vera undirbúnir undir fjölbreyttari sviðsmyndir.

„Þó að það komi ekki eldgos í þessari viku eða næstu að á meðan þrýstingur eykst í kvikusöfnunarsvæðinu þá verðum við að vera undirbúin undir það að það komi eldgos þó síðar verði. Það byggist þá bara upp meiri þrýstingur og það þarf að losa hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert