Erfitt er að ná fram sakfellingu í mansalsmálum og erfitt er að sanna mansal. Aðeins þrjú mansalsmál hafa farið fyrir dóm og þar af hefur eitt endað með sakfellingu.
Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.
„Það sem er flókið við þetta er að þetta eru þannig brot að það getur verið erfitt að sanna þetta. Það er oft þannig þú ert oft með brotaþola sem eru kannski ekki samvinnuþýðir. Það geta verið alls konar ástæður fyrir því,“ segir Kolbrún og nefnir í því samhengi að fólk gæti verið hrætt, óttast um ættingja í sínu heimalandi og treystir ekki endilega yfirvöldum.
Hún segir að fólk sem eru fórnarlömb vinnumansals meti það stundum sem svo að lífskjör þeirra séu betri hér á Íslandi þrátt fyrir bagalegar vinnuaðstæður, lítil sem engin laun, að vera ekki frjálst ferða sinna og fleira.
Því geti það einnig haft áhrif á það hvort þau tjái sig eða ekki.
„Þá breytir það ekki því að þetta getur verið vinnumansal jafnvel þó fólk upplifi að það sé í aðeins betri stöðu en í sínu heimalandi. Fólk er kannski hrætt við það að vera sent í enn þá verri stöðu. Þá getur verið erfitt að rannsaka þessi brot því þá þurfum við að treysta á önnur sönnunargögn heldur en bara framburði brotaþola,“ segir Kolbrún.
Mansal kom ekki inn í almenn hegningarlög fyrr en árið 2009. Síðan þá hafa þrjú mál farið fyrir dóm og eitt mál endaði með sakfellingu. Meðal þessara mála er til dæmis frægt mál Catalinu Ncogo sem var sakfelld fyrir vændi árið 2010. Þá var hún einnig ákærð fyrir mansal en var sýknuð af þeim ákærulið.
„Frá því að embætti héraðssaksóknari var stofnað 2016 – við erum með ákæruvaldið í þessum málum – höfum við bara fengið sex mál. Þetta er líka það að það eru fá mál sem komast upp í gegnum rannsóknirnar,“ segir Kolbrún og útskýrir að það sé vegna þess hversu erfitt það er að sanna mansal.
Hátt í tíu eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu er tengist umfangsmikilli aðgerð sem áttatíu starfsmenn lögreglu tóku þátt í á þriðjudag.
Aðgerðirnar voru vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.
Ef þetta mál fer fyrir dóm yrði það fjórða mansalsmálið sem dæmt verður í á Íslandi, en meint fórnarlömb telja tugi.