SA og breiðfylkingin undirrita kjarasamning

Frá undirrituninni í Karphúsinu á sjötta tímanum.
Frá undirrituninni í Karphúsinu á sjötta tímanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn, undirrita í dag nýjan kjarasamning. Um er að ræða langtímasamning sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. 

Samningurinn felur í sér lágmarkshækkun launa um 23.750 krónur á hverju samningsári, en laun munu almennt hækka um 3,25% á fyrsta samningsárinu og síðan 3,5% samningsárin á eftir, eða annað, þriðja og fjórða samningsárið. 

Samn­ing­ur­inn var und­ir­ritaður í Karp­hús­inu á sjötta tímanum í dag ber yfirskriftina Stöðugleikasamningurinn. Samningurinn er gerður til að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu með það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. 

Kauptaxta- og framleiðniauki 

Til að undirbyggja stöðugleika var lögð áhersla á að gerð langtímasamnings til fjögurra ára með launastefnu sem byggir á hlutfallslegum launabreytingum og lágmarkskrónutölu sem nemur 23.750 krónum. 

Til viðbótar við launastefnuna getur síðan komið til greiðslu kauptaxta- og framleiðniauka á samningstímanum.

Kauptaxtaaukinn felur í sér að á samningstímanum reiknast taxtaauki á lágmarkskauptaxta kjarasamninga vegna launaþróunar á almennum vinnumarkaði, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. 

Þá byggir framleiðniaukinn á þróun framleiðni og felur í sér að launafólk fái hlutdeild í verðmætaaukningu ef framleiðni eykst meira en gert er ráð fyrir. 

Það var létt yfir fólki í Karphúsinu.
Það var létt yfir fólki í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun ræstingarfólks tekur sérstökum hækkunum 

Í samningnum er lögð sérstök áhersla á starfsmennt og vinnuvernd auk þess sem gerðar verða breytingar á ávinnslu orlofs. 

Eins munu laun starfsfólks í ræstingu taka sérstökum hækkunum á meðan á hæfnigreiningu á störfum í ræstingu stendur og vegna sérstakra vinnuaðstæðna ræstingarfólks. 

Þannig mun ræstingarfólk fara úr launaflokki sex í átta á meðan hæfnisgreiningunni stendur auk þess að fá greiddan ræstingarauka að upphæð 19.500 krónur á mánuði m.v. fullt starf vegna vinnuaðstæðna ræstingarfólks. 

Þá verður gerð breyting á fyrirkomulagi álagsgreiðslna hjá verkafólki í ferðaþjónustu þannig að greitt verður vaktaálag hjá vaktavinnufólki fyrir alla vinnu utan dagvinnutímabils fram að fullum vinnuskilum. 

Auk þess sem heimilt verður að gera samkomulag á vinnustað um aðrar vaktaálagsgreiðslur en samkvæmt kjarasamningi.

Iðnaðarmennirnir fá einnig sinn skerf en fimm ára þrep sveina- og meistarataxta bætist við launatöflur og í stað tímaviðmiðs ráðast launakjör iðnnema hjá Samiðn af færni þeirra samkvæmt ferlihandbók. 

Samningsforsendur endurskoðaðar reglulega

Hvað forsendurákvæði kjarasamningsins varðar þá mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa til að styrkja forsendur og markmið kjarasamningana. Þessi nefnd mun hafa það hlutverk að fylgjast með framvindu þeirra þátta í efnahagslífinu sem hafa áhrif á markmið samningsins. 

Standist forsendur kjarasamninga ekki ber nefndinni að taka ákvörðun um viðbragð. Þannig verða forsendur samningsins endurskoðaðar af nefndinni tvisvar á samningstímanum, annars vegar hinn 1. september 2025 og hins vegar hinn 1. september 2026.  

Kjarasamningur var undirritaður í Karphúsinu klukkan fimm.
Kjarasamningur var undirritaður í Karphúsinu klukkan fimm. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert