Það er á könnu Útlendingastofnunar að gæta að öryggismálum í tengslum við komu 72 einstaklinga frá Gasasvæðinu hingað til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi í morgun.
Sigmundur Davíð spurði til hvaða öryggisráðstafana stjórnvöld hefðu gripið til varðandi hvaða fólk eigi þarna í hlut og hvaða ráðstafanir þurfi að gera samhliða móttöku þess.
Bjarni sagði dómsmálaráðuneytið annast málefni hælisleitenda en að stjórnvöld hefðu kannað málið mjög vandlega og undirbúið mögulegar aðgerðir sínar vel.
Hann kvaðst taka undir orð Sigmundar Davíðs um að öryggismálin væru mikilvægur þáttur í heildarferlinu og sagði stjórnvöld hafa haldið ríkislögreglustjóra upplýstum um stöðu mála. Einnig væri gengið út frá því að könnun ísraelskra og egypskra stjórnvalda á fólkinu á landamærunum hefði falið í sér „einhvers konar úttekt” og bætti við að aðallega væri um konur og börn að ræða.