Skálatún í Mosfellsbæ, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, mun fá nafnið Farsældartún en það nafn varð hlutskarpast í vali dómnefndar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skálatúni en þar segir að á svæði Skálatúns í Mosfellsbæ hafi um árabil verið rekin þjónusta fyrir fatlað fólk sem hefur haft þar búsetu. Árið 2023 lét fyrrum rekstraraðili, IOGT á Íslandi, af rekstrinum og Mosfellsbær tók við þjónustu við íbúa.
Á sama tíma var ákveðið að eignarhald fasteigna á svæðinu rynni til þá óstofnaðrar sjálfseignarstofnunar sem fékk síðar nafnið Skálatún, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.
Á svæðinu mun rísa ný byggð sem mun hýsa aðila sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu og mun reksturinn, eins og hann hefur verið undanfarin ár, því taka breytingum.
Í þeim tilgangi að marka nýtt upphaf á svæðinu réðist sjálfseignarstofnunin í nafnasamkeppni, þar sem öllum almenningi var veitt tækifæri til þess að leggja til heiti á svæðinu sjálfu og verkefninu sem framundan er, að reisa þar byggð sem mun verða að þjónustusvæði fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur. Rúmlega 150 tillögur bárust.
Starfsemin sem mun fara fram í Farsældartúni mun einmitt miða að því að farsæld barna verði náð og því skýrt samhengi milli þess sem fara mun þar fram og heitis svæðisins.
Orðið farsæld merkir samkvæmt orðabók „það að farnast vel í lífinu“. Dómnefndin taldi að vísan þess heitis í tún væri m.a. vísan í gamla tíma þar sem fyrra heiti svæðisins var Skálatún. Einnig að þannig væri vísað í hefðir Mosfellsbæjar eins og bæjarhátíðina „Í túninu heima“.