Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS-gögnum frá 3. - 6. mars sýna að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga. Þannig hafa í heildina rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að staðan sé því svipuð og fyrir 2. mars, þegar kvikuhlaup varð í Sundhnúkagígaröðinni.
Virkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi síðan á laugardag, einkum síðustu daga en veður hefur áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar.
Næsta sólarhringinn verður suðaustan strekkingur eða allhvass vindur með rigningu og takmörkuðu skyggni, einkum til fjalla.
Í fyrramálið dregur úr úrkomu en á morgun og næstu daga er útlit fyrir stöku skúri og líklegt að skyggni verði lítið meðan þetta ganga yfir. Heldur dregur úr vindi um helgina, suðaustan stinningsgola eða kaldi á sunnudag.
Þar segir enn fremur að eldgos gæti hafist með mjög skömmum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur.
Líklegast þykir að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
Veðurstofan hefur enn fremur framlengt gildistíma hættumatskorts, en þó með einni breytingu og lýtur hún að skiptingu svæða. Hafa svæði 2 og 3 á kortinu verið sameinuð í eitt svæði.
ýtt hættumat tók gildi kl. 15 í dag, fimmtudaginn 7. mars. Hættumatið gildir til 12. mars að öllu óbreyttu.