Starfsfólki létt þegar lögregla kom

Um 80 starfsmenn lögreglu komu að aðgerðinni á þriðjudag.
Um 80 starfsmenn lögreglu komu að aðgerðinni á þriðjudag. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Mikil áhersla var lögð á að sýna meintum þolendum mansals mildi í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu á þriðjudaginn. Túlkur var fenginn að utan til aðstoðar og þá var einnig notast við svokallaðan símatúlk. 

Starfsfólk þeirra veitingastaða og hótela sem lokað var í aðgerðunum var ekki upplýst um aðgerðirnar fyrir fram. Mikill léttir frekar en áfall einkenndi þó viðbrögð þeirra.

Þetta segir Hildur Sunna Pálmadóttir, aðstoðarsaksóknari hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Stærsta lögregluaðgerðin í tengslum við mansal

Málið sem um ræðir varðar rannsókn lögreglu á mansali, peningaþvætti, skipulagðri brotastarfsemi og brotum á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga. Sex hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við málið.

Eru þolendur sagðir telja tugi einstaklinga sem koma frá Víetnam. Tala sumir hvorki ensku né íslensku.

Rannsókninni tengist viðskiptamanninum Davíð Viðarssyni, sem er eigandi veitingastaðanna Wok On, Vietnam Pho, Reykjavík Downtown hotel og Kastala guesthouse.

Í aðgerðunum, sem stóðu yfir í marga klukkutíma og lauk ekki fyrr en á miðnætti, voru veitingastöðum og gistirýmum Davíðs lokað. Er um að ræða stærstu lögregluaðgerðir á Íslandi í tengslum við mansalsrannsókn. 

Samstarf frá áramótum

Aðgerðirnar á þriðjudag voru unnar af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við lög­regluliðin á Suður­landi, Suður­nesj­um og Norður­landi eystra, embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, Toll­gæsl­una, Útlend­inga­stofn­un, Vinnu­mála­stofn­un, ASÍ, vel­ferðarsvið Reykja­vík­ur­borg­ar, barna­vernd­ar­yf­ir­völd í Reykja­vík, Kópa­vogi og Hafnar­f­irði, fé­lagsþjón­ust­una í Kópa­vogi og Hafnar­f­irði, heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur, Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins og Bjark­ar­hlíð.

„Við höfum verið í nánu samstarfi, að minnsta kosti frá áramótum og þau hafa komið að undirbúningi aðgerðanna,“ segir Hildur um aðkomu stofnananna.

Reiðubúin með húsnæði

Heimilisaðstæður meintra þolenda voru misjafnar en að sögn Hildar Sunnu var það hlutverk félagsþjónustunnar að útvega húsnæði fyrir þau sem þurftu á því að halda. Var það úrræði nýtt í einhverjum tilfellum.

„Af því að þau sáu sér ekki fært að búa áfram á þeim stað sem þau bjuggu á fram að aðgerðardegi.“

Komu óeinkennisklæddir

Spurð hvort starfsfólk veitingastaðanna eða hótelanna hafði verið upplýst um aðgerðirnar fyrirfram, svarar Hildur því neitandi.

„Það vissi þetta enginn.“

Áfallahjálp var ekki boðin að sögn Hildar var ekki talin þörf á henni.

„Nei, það hefði verið gert ef þörf hefði verið á. Þau upplifðu meiri létti heldur en sjokk. Aðgerðirnar voru framkvæmdar þannig að lögreglumenn voru óeinkennisklæddir þegar þeir komu á staðinn, á ómerktum bílum. Það var ekki farið inn með offorsi. Það var lögð mikil áhersla á að það yrði farið inn í miklum rólegheitum. Starfsfólkinu var sýnt mjög mikið mildi.“

Þá voru starfsmenn með í för á vegum Alþýðusambands Íslands, Vinnumálastofnun og félagsþjónustu með.

„Sum þeirra hafa komið með áður á veitingastaðina og starfsfólkið kannaðist við. Það var lögð mikil áhersla á að upplifun starfsfólksins yrði eins góð og mögulegt væri, og það virðist hafa heppnast vel.“

Rökstuddur grunur

Hildur segir of snemmt að meta líklegt sé að rannsókn málsins leiði til sakfellingar, enda afar sjaldgæft á Íslandi að sakfellt sé fyrir mansal. Hún bendir þó á að það falli undir hlutverk héraðssaksóknara að taka ákvörðun um útgáfu ákæru.

„Það er kannski of snemmt að segja nákvæmlega til um það en miðað við umfangið í aðgerðunum teljum við vera rökstuddan grun uppi um mansal og við hefðum ekki ráðist í þessar víðtæku aðgerðir nema svo væri, enda mansal eitt alvarlegasta mannréttindabrot sem fyrirfinnst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert