Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir standa til að undirrita kjarasamning milli breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins í dag. Undirritunin veltur á afgerandi svari sveitarfélaganna um þeirra aðkomu.
Vilhjálmur var nýkominn af fundi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem haldinn var í Stjórnarráðinu, þegar blaðamaður ræddi við hann. Þangað fór hann í félagsskap Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og Hilmars Harðarsonar, formanni Samiðnar.
Á fundinum fengu formenn félaganna kynningu á þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin mun láta fylgja meðvæntanlegum kjarasamningi.
„Ég ætla að vera alveg heiðarlegur með það að sá aðgerðarpakki sem stjórnvöld eru að koma með er að mörgu leiti mjög góður og gagnast okkar fólki mjög vel,“ segir Vilhjálmur og áréttir að mörg atriði skipti gríðarlegu máli fyrir félagsfólk umræddra félaga.
„Þó það sé alltaf þannig að menn vilja meira. Það er bara eðli þessara mála.“
„Hins vegar stendur eitt mál eftir sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli og lýtur að sveitarfélögunum. Það er að hafa tryggingu fyrir því að sveitarfélögin komi að þessu borði með þeim hætti sem um er talað,“ segir Vilhjálmur og nefnir fríar skólamáltíðir fyrir grunnskólabörn.
Til útskýringar segir Vilhjálmur að ríkið sé að skuldbinda sig til að greiða 75% af kostnaði við máltíðirnar og sveitarfélögin 25%. Nokkur sveitarfélög hafa að sögn Vilhjálms lýst fyrir fullum stuðningi og þátttöku. Enn stendur þó á nokkrum sveitarfélögunum „sem við höfum áhyggjur af,“ segir hann.
„Ég ætla að vona að dagurinn í dag muni leiða til þess að við verðum komin með endanlegt svar því það stendur til að skrifa undir klukkan fimm í dag og síðan ætla stjórnvöld að kynna aðgerðarpakkann klukkan sex,“ segir Vilhjálmur.
Ekki fékkst staðfesting frá forsætisráðuneytinu um að til stæði að kynna yfirlýsingu stjórnvalda klukkan 18.00 í dag.
„Þetta eru tímamótasamningar. Það er í raun og veru algerlega magnað að hér er íslenskt lágtekjufólk sem er að móta launastefnu sem hefur það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við erum tilbúin að fara þessa leið því ávinningurinn af slíku er gríðarlegur fyrir okkar fólk vegna þess að verðbólgan leikur lágtekjufólk langverst af öllum sem búa í íslensku samfélagi,“ segir Vilhjálmur og bætir við:
„Ég vil undirstrika það að núna erum við að hlusta á Seðlabanka Íslands, þar sem að seðlabankastjóri hefur sagt hvað þurfi til. Hann hefur beint spjótum sínum dálítið að okkur í verkalýðsfélögunum og núna förum við nánast að einu og öllu eftir því sem að seðlabankinn hefur verið að gera.“
Þar af leiðandi segir Vilhjálmur boltann aftur kominn til Seðlabanka Íslands, enda sé íslenskt launafólk að leggja sitt fram í anda þess sem Seðlabankinn hefur verið að biðja um.
Spurður hvað gerist, fallist sveitarfélögin ekki á sína aðkomu í stjórnvaldspakka ríkisins svarar Vilhjálmur:
„Ábyrgð þeirra er mikil í þessari vegferð. Ég vill minna á að sveitarfélögin eru að greiða 194 milljarða í laun. Í kringum 70-75% af útgjöldum sveitarfélaganna eru í formi launahækkanna. Þau gerðu ráð fyrir á árinu 2024 yrði launakostnaður á bilinu 8-9%. Kostnaðarmat okkar samninga eru í kringum 4%, þannig að sparnaður sveitarfélaganna af því sem við erum að gera er á milli 10 og 12 milljarðar sem er langt um meira heldur en það framlag sem við erum að biðja sveitarfélögin um að leggja í þetta púkk,“ segir hann og bætir við:
„Þeim ber siðferðisleg skylda til að taka þátt í þessu með okkur því að það er í raun og veru ekki verið að biðja sveitarfélögin um að leggja neitt fram, því þau fá miklu meira til baka með þessum hætti.“