Tapa hátt í hálfri milljón

Móðir í Garðabæ er með böggum hildar vegna leikskólamála þar …
Móðir í Garðabæ er með böggum hildar vegna leikskólamála þar í bænum og það eru fleiri ef marka má umræðu í íbúahópi Garðbæinga á Facebook og nýstofnaðan hóp þar um leikskólamál bæjarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fluttum hingað sumarið 2022 og þetta er í raun í annað skiptið sem ég er í leikskólaveseni hérna í Garðabænum,“ segir Garðbæingurinn Ásdís Thelma Fanndal Torfadóttir í samtali við mbl.is í frásögn af bagalegum biðlistamálum leikskóla í Garðabæ sem íbúar bæjarins ræða nú sín á milli í Facebook-hópi sínum.

„Staðan er sú að listarnir eru að verða lengri og lengri út af aðfluttum börnum, dæmi er um barn fætt 2018 sem bíður eftir plássi og einnig 2020-barn. Það er verið að draga okkur foreldrana á asnaeyrunum með loforðum um pláss innan skamms þegar raunveruleikinn er allt annar,“ segir Ásdís.

Hún var með dóttur á síðasta ári í leikskóla í Norðlingaholti í Reykjavík. „Hún var eina barnið á biðlista þá í leikskólann hérna í Urriðaholtinu [í Garðabæ] en fékk ekki aðgang þar fyrr en eftir hálft ár á bið.

Ásdís Thelma hafði samband við bæinn í maí í fyrra …
Ásdís Thelma hafði samband við bæinn í maí í fyrra með barn fætt í október 2022 og var þá tjáð að nýr leikskóli hæfi göngu sína í janúar á þessu ári og barnið ætti þá að komast inn. Svo fór þó ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Löngu fullt hjá dagforeldrum

Ásdís segir Garðabæ hafa borið við manneklu á leikskólunum en auk þess þyki henni upplýsingaflæði hjá bænum ábótavant. Segir hún fjölda fólks hafa sagt sínar sögur í umræðu við innlegg hennar í Facebook-hópnum nú í vikunni.

„Garðabær gefur út að börn fái leikskólapláss í bænum frá tólf mánaða aldri. Hér í bænum eru fjórir dagforeldrar og ein þeirra er að hætta. Þar er allt löngu fullt og biðlistar eftir því og bærinn er ekki að gera neitt til að efla dagforeldrana á meðan ástandið er svona,“ segir Ásdís og kveður tólf mánaða viðmið bæjarins alls ekki eiga við lengur.

Þau maður hennar – og margir fleiri foreldrar að hennar sögn – hafi ítrekað fengið að heyra frá bænum að nú sé alveg að koma pláss. „Mín er október '22 barn og ég sæki um þegar barnið er vikugamalt. Svo hafði ég samband í maí í fyrra til að spyrja hvenær aðlögun ætti að hefjast og þá kom í ljós að ekkert pláss var í boði en nýr leikskóli væri að byrja í janúar og þá ætti hún að komast inn.

Þau [hjá bænum] höfðu aldrei samband við mig að fyrra bragði til að segja mér að staðan væri svona slæm og þau væru ekki að fara að koma börnunum inn,“ segir Ásdís og kveðst þá hafa farið á fullt í að finna lausn sjálf og byrjað á að leita til dagforeldra en þar hafi ekki verið á vísan að róa.

Janúar kom og fór

Janúar hafi svo komið og farið og ekkert gerst í málinu. „Byggingin var þá ekki tilbúin og þá er sagt um miðjan febrúar sem varð ekki og svo var sagt að hún ætti að fá að byrja 1. mars. Maður beið svo bara eftir pósti um hvenær aðlögun hæfist en það gerðist ekkert,“ segir Ásdís enn fremur sem einmitt situr heima með barnið meðan á viðtali stendur og skiptir athygli sinni milli þess og blaðamanns.

„Við skiptum niður dögunum okkar, ég vinn tvo daga í …
„Við skiptum niður dögunum okkar, ég vinn tvo daga í viku ef ég er heppin og hann vinnur þrjá. Við erum að tapa tekjum sem nema hátt í hálfri milljón á mánuði,“ segir Ásdís Thelma. mbl.is/Árni Sæberg

Auk þess sé engin leið fyrir hana að sjá hvar hennar barn sé statt á biðlista. „Ég veit að Reykjavíkurborg er með [smáforritið] Völu þar sem maður getur alltaf séð hvar barnið er. Garðabær er að byrja með það en við getum ekki séð biðlistana þar á næstunni svo ég sendi bara ítrekað póst og spyr hvar barnið sé statt á biðlista. Því er aldrei svarað. Ef ég spyr hins vegar um eitthvað annað í póstinum er því svarað,“ segir móðirin ráðvillt.

„Ég hringdi svo í fyrradag og fékk þá að vita að hún væri númer 86 á biðlista og væri örugglega ekki að komast inn fyrr en í ágúst,“ segir Ásdís og er spurð hvernig líf þeirra foreldranna gangi fyrir sig með tilliti til vinnumarkaðsþátttöku eins og nú er í pottinn búið.

„Við skiptum niður dögunum okkar, ég vinn tvo daga í viku ef ég er heppin og hann vinnur þrjá. Við erum að tapa tekjum sem nema hátt í hálfri milljón á mánuði miðað við útborguð laun. Garðabær er með biðgreiðslur sem ég auðvitað tók af því að ég veit að því fylgir þrýstingur. Þær eru 96.000 kall minnir mig sem gerir náttúrulega ekki neitt,“ útskýrir Ásdís.

Skrái sig með lögheimili hjá ættingjum

Hún segir aðeins talað um jákvæða hluti á heimasíðu Garðabæjar, „þar var sagt frá opnun nýja leikskólans og myndir af því, en það er ekkert talað um að það séu 150 börn á biðlista í bæjarfélaginu“, segir hún og bendir á að þetta ýti í raun undir vandann, um það hafi fólk skrifað í Facebook-hópnum.

Ásdís Thelma segir brögð að því að fólk í öðrum …
Ásdís Thelma segir brögð að því að fólk í öðrum sveitarfélögum skrái lögheimili sitt hjá ættingjum í Garðabæ til að koma börnum sínum í leikskóla þar vegna þess að biðlistavandinn sé ekki ræddur og fólk telji pláss að hafa í Garðabæ. mbl.is/Hákon

„Einhverjir voru að tjá sig um þetta. Af því að það er ekki talað um Garðabæ og leikskólavandann. Fólk þekkir dæmi þess að einstaklingar í öðrum bæjarfélögum séu að skrá sig með lögheimili hjá ættingjum í Garðabæ til að koma börnunum sínum inn hér. Það vindur upp á sig þegar það fólk er komið á biðlista hér líka,“ segir Ásdís frá og segir nú Facebook-hópinn Leikskólamál í Garðabæ nýstofnaðan og þangað flykkist nú foreldrar sem eigi hagsmuna að gæta. „Við vorum orðin þar hundrað á einum degi,“ segir hún.

Ásdís telur þarna réttindi barna að vissu leyti fótum troðin þar sem þau missi af því að taka út þann félagslega þroska og fleira sem dvöl á leikskóla geri fyrir börn.

258 milljónir á ári

„Og ég hef ekki séð neitt talað um þetta,“ segir Ásdís, „og þetta er í annað skiptið á einu og hálfu ári sem ég lendi í veseni með leikskóla hér. Ég er ekki búin að vera hér lengi. Fólk tapar gríðarlegum fjármunum í launum ef annað foreldrið er bara heima.

Það eru 85 börn á undan stelpunni minni. Ef við miðum við að tekjuskerðing á mann sé 250 þúsund á mánuði, þrjá milljónir á ári, þá eru þetta 258 milljónir á einu ári sem 86 manns tapa og Garðabær er að tapa peningum líka,“ segir Ásdís Thelma Fanndal Torfadóttir, móðir í Garðabæ, um kyrr kjör í leikskólamálum þar í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka