Klara Ósk Kristinsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, bindur vonir við að yfirlýsing sveitarfélaganna sé orðin nægilega skýr til að breiðfylking stéttarfélaga geti fallist á hana.
Til stendur að undirrita kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga klukkan fimm í dag. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa lýst því yfir að þau muni ekki undirrita kjarasamninga nema sveitarfélögin komi með sannfærandi yfirlýsingu.
Heiða segir sveitarfélögin hafa átt samtöl um yfirlýsinguna síðustu daga og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hún áréttir að síðan sé það í höndum sveitarfélaganna að taka ákvörðun, þó það sé í höndum samtakanna að leiða útfærsluna.
Aðallega hefur verið deilt um aðkomu sveitarfélaganna að gjaldfrjálsum skólamáltíðum, en samstaða þess efnis hefur ekki ríkt milli sveitarfélaganna.
Vilhjálmur Birgisson sagði í samtali við mbl.is skömmu fyrir hádegi að það væri hagur sveitarfélaganna að samþykkja gjaldfrjálsar skólamáltíðir, en Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, sagði fyrr í vikunni að vantrú sveitarfélaganna á fjárhagsleg samskipti við ríkið vissulega spila inn í sýn sveitarfélaganna á málið.