Tók við reiðufé frá óþekktum aðila

Konan hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi.
Konan hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. mbl.is/Hákon

Erlend kona á þrítugsaldri var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjaness í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Mætti hún ekki fyrir dóm og var því litið svo á að hún hafi viðurkennt brot sín.

Þegar konan, sem er með nígerískt ríkisfang, kom til landsins í október árið 2023 lagði lögreglan á Suðurnesjum hald á 5.270 evrur, sem samsvarar rúmum 806 þúsund íslenskra króna, sem konan hafði í fórum sínum. Tók hún við reiðufénu um allnokkurt skeið frá óþekktum aðila.

Ekki áður gerst sek um brot

Með háttsemi sinni hafi hún móttekið ávinning af refsiverðum brotum, geymt hann, flutt og leynt ávinningnum og upplýsingum um hann og þar með brotið gegn almennum hegningarlögum. 

Konan hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi og þótti því þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára hæfileg refsing. Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert