Þingmenn úr Flokki fólksins, Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum vilja að þjóðsagnarsafn Jóns Árnasonar sótt frá Munchen í Þýskalandi og heim til Íslands.
15 þingmenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fela menningar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra að fara þess á leit við stjórnvöld í Bæjarlandi í Þýskalandi að handrit þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar verði afhent íslensku þjóðinni til ævarandi varðveislu.
Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, er í eigu Ríkisbókasafns Bæjaralands í .
Safnið kom upphaflega út í tveimur bindum í Leipzig árin 1862 og 1864 en Jón fór aldrei út til Þýskalands til að fylgja útgáfunni eftir. Það gerði Konrad Maurer, prófessor í réttarsögu og vinur Jóns Sigurðssonar aftur á móti eftir ásamt Guðbrandi Vigfússyni, málfræðingi í Oxford.
Heildarútgáfa safns Jóns Árnasonar birtist á prenti á árunum 1954–1961 í fimm bindum, auk nafnaskrár í sjötta bindi. Prentsmiðjuhandrit útgáfunnar frá 1862–1864 hvarf, en fannst fyrir tilviljun í gögnum föður Maurers í Ríkisbókasafni Bæjaralands.
„Svo virðist sem handritið hafi farið frá prófessor Konrad Maurer og tilheyrt röngum gögnum að prentun lokinni. Handritið tilheyrir með réttu Jóni Árnasyni, útgefanda þjóðsagnasafnsins, og ætti að vera varðveitt á Íslandi,“ segir í þingsályktuninni.
Maurer gaf sjálfur út bók um íslenskar þjóðsögur, Isländische Volkssagen der Gegenwart, sem kom út árið 1860 eftir ferðalag hans til Íslands árið 1858 þar sem hann safnaði sögum og ævintýrum landsins.
„Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru hluti af þjóðernisvakningu nítjándu aldar þar sem íslenska þjóðin vildi sanna tilveru sína með sambærilegum þjóðlegum arfi og aðrar þjóðir í Evrópu gerðu,“ segir í ályktuninni.
Handritin séu því íslenskur þjóðararfur sem ætti að vera varðveita annaðhvort í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eða hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þar sem rannsóknum á íslenskum þjóðsagnaarfi er sinnt.