Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra er mjög vongóður um að íslensk stjórnvöld geti staðið við kjarnagreiðslu til Palestínuflóttamannahjálparinnar (UNRWA) sem átti að berast fyrir 1. apríl.
Þessu greindi hann frá á Alþingi er hann svaraði fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanni Samfylkingarinnar.
Bjarni ræddi við utanríkismálanefnd Alþingis í byrjun febrúar um frystar greiðslur íslenskra stjórnvalda til stofnunarinnar eftir að grunsemdir komu upp um að UNRWA hefði hugsanlega átt aðild að árás Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október.
Síðan fundur utanríkismálanefndar var haldinn sagði að Bjarni að Norðmenn og Írar hefðu aukið við stuðning sinn til stofnunarinnar. Ráðherrann kvaðst hafa átt í samskiptum við kollega á Norðurlöndunum og setið tvo fundi með þeim um að færa þessi mál til betri vegar. Auk þess hefðu embættismenn talað saman um málið.
„Ég er mjög vongóður um að við Íslendingar getum staðið við þessa kjarnagreiðslu í ljósi þeirrar vinnu sem hefur verið unnin í ráðuneytinu. Hitt er síðan annað mál að hversu miklu leyti við styðjumst við aðrar stofnanir á svæðinu það sem eftir lifir ársins,” sagði Bjarni, en kjarnagreiðslan í ár nemur 110 milljónum króna.
Bjarni sagði jafnframt stóru spurninguna snúast um hvernig Ísland vilji haga heildarstuðningi sínum vegna mannúðarmála á Gasasvæðinu.