„Auðvitað vill maður alltaf meira“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kveðst binda vonir við að VR og LÍV nái að landa samningi við Samtök atvinnulífsins sem allra fyrst en samningsaðilar hittast á fundi í Karphúsinu á mánudaginn.

Breiðfylking stéttafélaga og Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir fjögurra ára kjarasamning í gær en sem kunnugt er slitu VR og LÍV sig frá vettvangi breiðfylkingarinnar á dögunum.

Spurður hvernig honum lítist á nýgerða kjarasamninga breiðfylkingarinnar og SA segir Ragnar:

„Við höfum verið þátttakendur í þessari vinnu síðustu mánuði og erum alveg meðvituð um það hvaða línur er verið að leggja. Markmiðin okkar eru auðvitað hin sömu sem er að ná niður vöxtum og verðbólgu hratt og vel.“

Margt jákvætt í aðgerðapakkanum

Hann segir að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í gær sé margt jákvætt og gott sem hjálpi til í þeirri vinnu sem framundan er.

„Ég held að við séum öll sammála innan hreyfingarinnar – að auðvitað vill maður alltaf meira. Það er eðli okkar sem störfum í þessum kjaramálum. En heilt yfir er þessi samningur það upplegg sem var búið að sníða þegar við fórum út úr breiðfylkingunni,“ segir Ragnar.

Hann segist hafa áhyggjur að veikum forsenduákvæðum og í því felist meiri áhætta fyrir launafólk ef markmiðin náist ekki sem hann segist vona innilega að geri.

Spurður hvort honum finnst vanta meiri varnir í nýundirritaðan samning segir Ragnar Þór:

„Ég get nefnt bæði tímalínur forsenduákvæða og vikmörkin. Við hefðum viljað hafa þau með öðrum hætti heldur en þau eru. Ekki bara auka varnir fyrir launafólk heldur líka til þess að ná auknum hvata frá atvinnulífinu til þess að taka virkari þátt í að ná markmiðunum sem eru þau sömu og hjá öllum.“

Ragnar segir að það séu sérkjarasamningar sem þurfi að ganga frá eins og þau félög sem hafa verið að klára samninga. Hann segir að það sé ólík uppbygging stéttarfélaga og þar af leiðandi séu önnur mál kjarasamninga sem séu mikilvæg þegar um sé að ræða langa kjarasamninga.

Viljum hafa okkar viðsemjendur úthvílda og tilbúna

Ragnar segir að VR og LÍV hafi fundað með Samtökum atvinnulífsins í gær. Í dag ræða fagfélögin við SA en á mánudaginn hafi verið boðaður fundur í Karphúsinu þar sem VR og LÍV hittast á fundi með SA.

„Við vorum sammála um að gera atlögu að þessu á mánudaginn. Það er búið að mæða mikið á samninganefnd Samtaka atvinnulífsins og við erum talsmenn þess að fólk fái eðlilega hvíld. Það hefur ekki staðið á okkur að funda og klára málið en við gerum okkur grein fyrir því að við viljum hafa okkar viðsemjendur úthvílda og tilbúna í verkefnið heldur en þreytta og pirraða,“ segir Ragnar.

Ert þú bjartsýnn á þið náið saman og semjið fljótlega?

„Verkefnið okkar er ekkert voðalega flókið það sem stendur eftir. Það á að vera hægt að klára þetta á tiltölulega skömmum tíma og þá horfi ég í dögum frekar en lengra tímabili. En þá þarf samningsviljinn að vera til staðar hjá okkar viðsemjendum. Hann er svo sannarlega til staðar hjá okkur.“

Ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn

Finnst þér vanta upp á samningsviljann hjá Samtökum atvinnulífsins?

„Í þeim málum sem stóðu út af borðinu hjá breiðfylkingunni þá er það mitt mat að Samtök atvinnulífsins hefðu mátt vera samningsfúsari í að klára þau með hraðari og markvissari hætti heldur en var gert.

Það boðar ekki gott ef stífnin er það mikil að það taki marga daga að klára smæstu atriði en fyrst búið er að landa þessum samningi að þá vona ég að það sé hægt að klára okkar samning fljótt og vel. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn að þegar við setjumst niður á mánudaginn að samningurinn verði kláraður á tiltölulega stuttum tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert