Ásdís María Viðarsdóttir, einn lagahöfunda sigurlagsins í Söngvakeppninni, hefur ákveðið að fylgja laginu Scared of Heights, ekki til Malmö í Svíþjóð þar sem Eurovision-söngvakeppnin fer fram.
Þetta segir hún í samtali við RÚV.
Hún segir að henni finnist athugasemdir sem gerðar voru við atkvæðagreiðslu eiga rétt á sér en mjótt var á munum milli Scared of Heights og lags í flutningi Bashar og Murad, Wild West.
„En ég mun ekki fylgja laginu út í lokakeppnina ef af því verður. Samviska mín leyfir það bara ekki.“
Þá kemur fram að Ásdís hafi látið lögfræðing kanna réttarstöðu lagsins en ekki liggi vafi á því að RÚV eigi lagið.
Haft er eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra að RÚV virði ákvörðunina. Þá segir að framhald málsins væri enn í skoðun, meðal annars hvort Ísland myndi senda lag í lokakeppnina. Afstaða Ádísar yrði tekin inn í það mat.
Þá upplýsti Stefán um það að RÚV hafi ákveðið að fá óháðan aðila til að gera úttekt á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.