Óljóst hvar 80 milljarðar verða fundnir

Rík­is­stjórn­in mun leggja fram 80 millj­arða króna í aðgerðir.
Rík­is­stjórn­in mun leggja fram 80 millj­arða króna í aðgerðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rík­is­stjórn­in mun leggja fram 80 millj­arða króna í aðgerðir á samn­ings­tíma kjarasamninga sem undirritaðir voru í gær. Ekki liggur fyrir hvaðan þessir 80 milljarðar munu koma.

Hvernig verður þetta fjármagnað?

„Þetta eru stórar aðgerðir og er skýr forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna en ekki síður til þess að ná frið á vinnumarkað og svona löngum samningum. Það var gríðarlega rík krafa á stjórnvöld og aðkomu þeirra að þessum kjarasamningum. Ég vona að þessir kjarasamningar séu nýtt upphaf að því leyti hvernig samið er á vinnumarkaði og með hvaða hætti aðkoma stjórnvalda er. En það er alveg klárt að þetta hefur áhrif á ríkisfjármálin.

Við tókum í raun ákvörðun við ríkisstjórnarborðið að þetta væri forgangsverkefni stjórnvalda – að stuðla að því að það kæmust á langtímakjarasamningar. Það þýðir að önnur verkefni sem að ráðherrar hafa vilja til að fá frekara fjármagn til, það svigrúm er einfaldlega ekki til staðar vegna þess að við tókum ákvörðun um að forgangsraða í þessa þágu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt að ráðast í kerfisbreytingar

Hversu mikið af fjármagninu er að fara koma til vegna niðurskurðar annars staðar og hversu mikið kemur með lánum?

„Það er spurning um útfærslu og samspil þessara þátta. Við vitum að við afgreiddum fjárlög með nokkru aðhaldi sem að síðan hefur strax áhrif í byrjun árs þegar náttúruhamfarir á Reykjanesskaga og Grindavík koma til sem kalla á útgjöld – sem eru þó einskiptis útgjöld sem eru allt annað heldur en viðvarandi aukinn rekstur og viðvarandi útgjöld ríkisins.

Það hangir þá saman með hvaða hætti við drögum úr útgjöldum hvernig við spörum. Með hvaða hætti er hægt að fara í kerfisbreytingar á því hvernig við rekum ríkið. Það er hægt að fara í margar slíkar aðgerðir án þess að það hafi neikvæð áhrif á þjónustu við borgara.“

Frá undirritun kjarasamninga breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu …
Frá undirritun kjarasamninga breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðum að tala af raunsæi um ríkisfjármálin

En verður tekið lán fyrir einhverju af þessu?

„Við erum auðvitað með ríkissjóð í halla, þó auðvitað margfalt minni heldur en spár gerðu ráð fyrir. Við erum komin með skuldahlutfallið í 39% á meðan að spár gerðu ráð fyrir að það yrði 56% – skuldahlutfallið. Þannig á margan hátt erum við á réttri leið og okkur hefur gengið betur. Við erum komin á betri stað í raun heldur en fyrir heimsfaraldur í landsframleiðslu, þessir hlutir skipta máli. En við verðum að tala af raunsæi um ríkisfjármálin og það er eðlileg krafa að gera ráðstafanir til að draga úr ríkisútgjöldum.“

En heldur þú að það verði tekið lán?

„Það fer allt eftir því hvaða ákvarðanir eru teknar. Þessi fjármálaáætlunarvinna er í gangi og það er samspil þessara þátta hvernig þú fjármagnar ríkissjóð – þær eru þekktar. Það er bara spurning hvernig nákvæmlega það samspil mun líta út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert