Ari Edwald, fyrrum forstjóri Mjólkursamsölunnar og 365-fjölmiðlasamsteypunnar, fer fyrir hópi fjárfesta sem sýnt hefur áhuga á því fjárfesta í vefmiðlum og útvarpshluta Sýnar.
Ekki hefur verið send tilkynning til Kauphallarinnar um að Sýn eigi í viðræðum við einhvern einn aðila og gefur það til kynna að málið sé ekki á lokastigum.
Ari vildi lítið tjá sig um málið en viðurkenndi að áhugi væri til staðar.
„Ég hef sýnt áhuga á þessu en ekkert sem ég get tjáð mig um það frekar á þessari stundu,“ segir Ari.
Hópurinn sem Ari fer fyrir ku ekki vera einn um hituna samkvæmt heimildum mbl.is.
Eins og fram kom í tilkynningu frá Sýn í desember á síðasta ári skipti Sýn hf. fjölmiðlaeignum félagsins upp í tvær einingar. Annars vegar vefmiðla og útvarp í einni einingu og hins vegar Stöð 2 í annarri einingu.
Eins var Kviku banka falið af hálfu stjórnar að vinna greiningu á rekstri og virði vefmiðla og útvarps. Þá var ákveðið að miðla afmörkuðum fjárhagsupplýsingum til mögulegra fjárfesta.
Undir vefmiðla Sýnar falla auk Vísis, ja.is og bland.is. Auk Bylgjunnar, eru m.a. útvarpsstöðvarnar FM og X-ið undir hatti fyrirtækisins.
Ekkert launungarmál er að rekstur Bylgjunnar og Vísis gengur vel en rekstur Stöðvar 2 síður.
Talsverður kostnaður felst í því að reka fréttadeild sjónvarpshlutans og auglýsingatekjur sjónvarpsstöðvarinnar hafa ekki skilað sér sem skildi undanfarin ár.