Fagfélögin búin að skrifa undir

Sátt náðist í deilu fagfélaganna og Samtaka atvinnulífsins rétt í …
Sátt náðist í deilu fagfélaganna og Samtaka atvinnulífsins rétt í þessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafiðnaðarsam­band Íslands, Mat­vís, VM og Grafía hafa skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA.

Unnið var fram á nótt við gerð nýs samn­ings og menn náðu að leggja loka­hönd á samn­ing­inn.

Samn­ing­ur­inn er sagður vera á svipuðum for­send­um og Breiðfylk­ing­in skrifaði und­ir á dög­un­um. Hann gildir frá 1. febrúar á þessu ári til 31. janúar 2028.

Undirritun samninga í Karphúsinu í dag.
Undirritun samninga í Karphúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðla að minnkun verðbólgu

„Með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við drjúgan hluta félaga á almennum vinnumarkaði en sem kunnugt er kláruðust langtímasamningar við breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði á dögunum.

Viðræður við Fagfélögin hafa staðið yfir samhliða viðræðum við breiðfylkinguna og eiga Fagfélögin mikilvægan þátt í þeirri launastefnu sem hefur verið mótuð,“ segir í tilkynningu SA.

Samningnum er ætlað að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þannig aukist kaupmáttur og fyrirsjáanleiki í efnahagslífinu verði aukinn.

Þetta leiði til þess að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs styrkist. „Slíkur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum,“ segir í tilkynningu SA.

Launa- og forsendunefnd tekur til starfa

Einnig kemur fram að sérstök launa- og forsendunefnd muni taka til starfa til þess að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna.

Ef forsendur kjarasamninga standist ekki beri nefndinni að taka ákvörðun um viðbragð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert