Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís og VM stefna á að skrifa undir nýja kjarasamninga skömmu eftir hádegi í dag. Unnið var fram á nótt við gerð nýs samnings og menn náðu að leggja lokahnykk á samninginn.
Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM segir í samtali við mbl.is að menn hafi sofið á þessu í nótt og það eina sem er eftir sé lokayfirlestur. Stefnt er á að skrifa undir klukkan 14 í dag.
„Ég er jákvæður á að við lokum þessu í dag og við stefnum á undirskrift,“ segir Guðmundur.
Hann segir að samningurinn sé á svipuðum forsendum og Breiðfylkingin skrifaði undir á dögunum.