Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir góða tilfinningu að klára samning eftir langar viðræður.
„En verkefnið er ekki búið. Nú þurfum við að kynna þetta fyrir okkar fólki og stilla upp atkvæðagreiðslu,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að fjölmenn samninganefnd sé ágætis mælir á baklandið og hefur hann því ágætis tilfinningu fyrir því að félagsmenn muni taka þessu vel. „Það er ekkert í hendi fyrr en við tölum við baklandið.“
Kristján er sáttur með niðurstöðuna í því tilliti að farið var eins langt og mögulegt var. „Við fórum eins langt og við gátum við þessar aðstæður,“ segir Kristján.
Hann segir samninginn vera sambærilegan þeim sem breiðfylkingin skrifaði undir á fimmtudag.
Að sögn Kristjáns verður atkvæðagreiðslan kynnt í vikunni en niðurstaða hennar muni liggja fyrir 22. mars klukkan 15.