Sú órjúfanlega vöffluhefð, sem þó var rofin þegar kjarasamningur Breiðfylkingar og SA var undirritaður á fimmtudag, virðist ætla að halda að þessu sinni en búist er við því að fagfélög Rafiðnaðarsambandsins, VM og Matvís skrifi undir nýjan samning á hverri stundu.
Í það minnsta berast nú fregnir af því að vöfflujárnunum hafi verið stungið í samband og ólíklegt í þeim orkuskorti sem tíðrætt er um að sjóðheit járnin verði ekki nýtt í þeim eina tilgangi sem þau hafa verið nýtt í hingað til. Í það minnsta á heimili undirritaðs.
Eins og fram kom í frétt á mbl.is á fimmtudag voru ekki gerðar vöfflur til að fagna kjarasamningi. Vakti það furðu viðstaddra, ekki síst matsárra fjölmiðlamanna.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari bar fyrir sig tímaleysi samningsmanna sem höfðu önnur erindi að undirskrift lokinni, en forystufólkið sótti fund ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu.
Sagði hann af því tilefni að vöfflur væru góðar en ekki gildissilyrði kjarasamninga.
Hvað sem því líður þá staðfesti Bára Hildur Jóhannsdóttir sáttasemjari við mbl.is fyrir skemmstu að vöfflujárnin væru að hitna.
„Vöfflujárnið er komið í samband,“ segir Bára.
Hún segir deigið ekki hvaða deig sem er heldur sé það sérgert og byggt á áralangri hefð. Hún lýsir því þó að notast sé við tilbúið vöfflumix að hluta en gefur ekki upp önnur hráefni. Hún félst þó á að gefa upp galdurinn að góðum vöfflum.
„Það er ást og umhyggja. Allar vöfflur eru betri með ást og umhyggju,“ segir Bára.