Slökkvistarf heldur áfram fram eftir kvöldi

Eldurinn er eins og er bundinn við háaloft og þak …
Eldurinn er eins og er bundinn við háaloft og þak hússins. mbl.is/Óttar

Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkvistjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að slökkvistarf við Hafnartúnshúsið á Selfossi muni dragast eitthvað fram eftir kvöldi.

„Eldurinn er núna bundinn við háaloft og þak, þannig að við erum að vinna í því,“ segir Lárus í samtali við mbl.is.

Hann segir að eldur hafi verið talsvert mikill þegar slökkvilið bar að garði. Húsið sé stórt og mikið einbýlishús. Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang.

Húsið líklega mannlaust

„Við verðum hérna í einhvern tíma áfram, við verðum hérna eitthvað fram eftir,“ segir Lárus Kristinn.

Ekki hefur verið tilkynnt um nein slys á fólki en húsið er talið hafa verið mannlaust þegar kviknaði í.

Tilkynnt var um eldinn á áttunda tímanum í kvöld.
Tilkynnt var um eldinn á áttunda tímanum í kvöld. mbl.is/Óttar

Stóð til að gera húsið upp

Ljóst er að gamla Hafnartúnshúsið sé mikið skemmt eftir eldinn. Húsið er gamalt einbýlishús við suðurenda nýja miðbæjarins á Selfossi. Til stóð að gera það upp. 

Íbúar í nágrenni brunans eru beðnir um að hafa glugga lokaða og að halda sig í hæfilegri fjarlægð til að trufla ekki störf viðbragðsaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert