Þolendur beittir blekkingum og hótunum

Kynlífs- og vinnumalsal eru algengustu birtingamyndir mansals hér á landi.
Kynlífs- og vinnumalsal eru algengustu birtingamyndir mansals hér á landi.

Birtingamyndir mansals eru margs konar en hér á landi er kynlífs- og vinnumansal algengast. Í langflestum tilvikum er um að ræða skipulagða brotastarfsemi en einstaklingar geta einnig hagnýtt aðra einstaklinga.

Fólk í viðkvæmri stöðu eru líklegir þolendur, meðal annars vegna fjárhagsstöðu, aldurs eða fötlunar. Þá eru aðfluttir einstaklingar jafnframt útsettari fyrir mansali en innfæddir Íslendingar.

Þolendur eru oft beittir blekkingum og hótunum svo þeir þora ekki að stíga fram og segja frá. 

„Það þarf ekki að vera að það séu innflytjendur, í rauninni getur hver sem er orðið þolandi mansals,“ segir Hildur Sunna Pálmadóttir, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

„Blekkingarnar felast oft í því að gefa fólki rangar upplýsingar um þeirra réttindi og hvernig aðstaðan er í því landi sem þú ert að flytja til. Þess vegna er það mjög oft þannig að fólk er flutt á milli landa.“

Erfið sönnunarstaða

Lögregla hefur rannsakað fjölmörg mansalsmál en aðeins eitt hefur leitt til sakfellingar.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, sagði við mbl.is sönnunarstöðu í mansalsmálum erfiða ef þolendur væru ekki reiðubúnir að tjá sig, sem þeir þyrðu oft ekki að gera. Oft væru þeir blekktir og þeim hótað svo þeir treystu ekki lögreglu.

Þora ekki að segja frá

Hvernig geta yfirvöld nálgast þennan viðkvæma hóp?

„Það er gert með því að undirbúa aðgerðir mjög vel, eins og við gerðum í þessu máli [á þriðjudag], vera tilbúin með aðstoð fyrir þolendur og geta gert þeim grein fyrir hvað lögregla og aðrar stofnanir geta gert fyrir þau og vera búin að undirbúa að það gangi eftir,“ segir Hildur Sunna.

Þó þolendur búi við skelfilegar aðstæður þá geti óvissan sem fylgir því að brjótast út úr þeim verið hræðilegri tilhugsun. „Þau eru hrædd við óvissuna sem bíður ef þau segja frá.“

Að sögn Hildar Sunnu eiga þolendur auðveldara með að treysta lögreglu þegar starfsfólk félagsþjónustu og verkalýðsfélaga er með í för.

Í aðgerðum lögreglu á þriðjudag, þar sem starfsemi Davíðs Viðarssonar viðskiptamanns var stöðvuð tímabundið og ætluðum þolendum mansals komið til bjargar, var starfsfólk ASÍ til að mynda með. Hafði starfsfólkið farið í reglulegar heimsóknir á veitingastaðina um nokkurt skeið áður en ráðist var í aðgerðina. 

Úthlutað dvalarleyfi

Heimild er í lögum að veita þolendum og ætluðum þolendum mansals dvalarleyfi á þeim grundvelli og atvinnuleyfi. Að sögn Hildar Sunnu á það bæði við um þá sem hafa komið hingað til lands eftir löglegum og ólöglegum leiðum. 

Hildur Sunna segir mikilvægt að geta boðið upp á slíkt úrræði.

„Ef að Útlendingastofnun fær tilkynningu frá lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sé talinn þolandi mansals þá geta þau úthlutað þeim dvalarleyfi á þeim grundvelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert