Útilokar ekki fleiri húsleitir

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi rannsókn gengur ágætlega og það er verið að vinna úr þessum gögnum sem við erum með,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Yfirheyrslur yfir sakborningum og vitnum standa yfir og munu gera það eitthvað áfram að sögn Gríms.

„Við höfum ekki farið í frekari húsleitir en svoleiðis getur alltaf gerst við rannsókn á svona málum,“ segir Grímur.

Nær mörg ár aftur í tímann

Níu sakborningar eru í málinu, grunaðir um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Lögregla afritar nú rafræn gögn og mun rýna í þau í framhaldinu. 

Um 40 manneskjur eru meint fórnarlömb í málinu og segir Grímur að mögulega verði rætt við fleiri fyrrum starfsmenn á vegum sakborninga.

„Það getur vel verið að ræða þurfi við fleiri en nákvæmlega þá sem voru á vettvangi þegar við fórum í aðgerðir. Þetta nær mörg ár aftur í tímann,“ segir Grímur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert