„Að læra tungumálið hleypti mér inn í samfélagið“

Barry var var valinn af samnemendum sínum til að flytja …
Barry var var valinn af samnemendum sínum til að flytja ávarp fyrir hönd útskriftarnema við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Ljósmynd/Háskólinn á Bifröst

Skotinn Barry James Logan Ward kom fyrst til Íslands í frí árið 2014 en ferðin átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á líf hans. Nú tíu árum seinna hefur hann verið búsettur hér á landi í átta ár ásamt kærustu sinni Unu Dóru.

Síðan þá hefur hann náð góðum tökum á íslensku og útskrifaðist fyrr í vetur með BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum við Bifröst. Hann var valinn af samnemendum sínum til að flytja ávarp fyrir hönd útskriftarnema, sem hann gerði bæði á ensku og íslensku. Hann vonar að saga sín geti verið innblástur fyrir aðra.

Kynntist kærustunni í heimsókn til Íslands

Barry er frá Skotlandi og kom hingað til landsins ásamt vinum sínum árið 2014 í frí, en Ísland hafði verið lengi á óskalistanum hjá þeim félögum. Í byrjun ferðarinnar kynntist hann kærustu sinni, Unu Dóru, og segir Barry þau kynni hafa breytt lífi hans.

Barry kom fyrst til Íslands árið 2014 með vinum sínum.
Barry kom fyrst til Íslands árið 2014 með vinum sínum. Ljósmynd/Barry Ward

Eftir að Barry fór aftur til Skotlands héldu þau Una sambandi og ferðuðust í tvö ár á milli Skotlands, Íslands og Ítalíu til að hittast, en Una Dóra var í námi á Ítalíu um tíma. Árið 2016 missti Barry móður sína úr krabbameini og stuttu seinna bauðst honum starf á Íslandi í ferðaþjónustu. Hann stökk á tækifærið og flutti til Íslands.

„Þar byrjaði þetta allt saman og hér er ég enn.“

Heimsfaraldurinn breytti miklu

Þegar heimsfaraldurinn skall á breyttist staða Barry hér á landi og hann tók í kjölfarið ákvörðun um að skrá sig í nám. 

„Ég hafði verið að vinna í ferðaþjónustu síðan ég kom til Íslands en allt breyttist þegar heimsfaraldurinn kom. Ég missti vinnuna og var atvinnulaus í sjö mánuði. Maður vissi ekki neitt og enginn gat sagt hve lengi þetta ástand myndi standa yfir eða hvort ferðamannageirinn myndi ná sér á ný.“

Í kjölfarið ákvað Barry að nota tækifærið og ná sér í almennilega menntun áður en allt yrði opnað á ný eftir faraldurinn. Það hefði hann átt að gera fyrir löngu segir hann, en hann hafði þá lokið við framhaldsskólanám.

„Mér gekk ekki vel í skóla þegar ég var yngri. Ég var klár strákur en ég var bara ekki að beita mér nægilega, ég var of mikill draumóramaður,“ segir Barry.

Þegar hann skoðaði möguleika sína sá hann fljótt að til þess að komast inn í háskólanám þyrfti hann að klára háskólagátt í Háskólanum á Bifröst fyrst. Þegar hann skráði sig var Bifröst að bjóða upp á námið á ensku í fyrsta sinn.

„Þetta var lykill minn að því að fá góða menntun. Ég naut þess að setjast aftur á skólabekk, mun meira en ég var kannski tilbúinn að viðurkenna á þeim tímapunkti.“

Stuðningur kennara ómetanlegur

Í Háskólanum á Bifröst fékk Barry mikinn stuðning. Hann kláraði fyrst háskólagátt á ensku og íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þessu undirbúningsnámi lauk hann með láði og síðan bætti hann um betur og útskrifaðist með BA í miðlun og almannatengslum.

Barry og Una Dóra kærastan hans.
Barry og Una Dóra kærastan hans. Ljósmynd/Barry Ward

Spurður hvernig hafi verið að klára háskólagráðu á íslensku segir hann ákvörðunina eina þá bestu sem hann hafi tekið og að námið hafi verið frábært. Hann bætir við að það hafi hjálpað mikið að nánast allt lesefnið hafi verið á ensku og hann hafi fengið tækifæri til að skila inn einhverjum verkefnum á ensku. 

Barry segir mikla erfiðisvinnu vera að baki náminu og hafi sveigjanleikinn í Háskólanum á Bifröst verið mikilvægur. 

Íslenskan erfið en það gerði lærdóminn skemmtilegri

Barry lærði íslensku að miklu leyti sjálfur með því að venjast tungumálinu hægt og rólega. Hann segir mestan lærdóm hafa átt sér stað með því að tala við fólk, horfa á íslenskt sjónvarpsefni og gleypa í sig málið. Hann segist einnig vera mjög heppinn með það að eiga íslenskan maka.

„Við tölum saman heima á bæði íslensku og ensku. Hún á líka stóra fjölskyldu eins og margir Íslendingar og ég læri helling af því. Auðvitað er gaman að geta setið við borðstofuborðið og stillt sig inn í spjallið.“

Barry segir mikilvægast að gefast ekki upp á íslenskunni. Hann bætir þó við að það vanti betri úrræði fyrir þá sem vilji læra íslensku og því verði stjórnvöld að bæta úr.

Dýr íslenskunámskeið á óhentugum tímum og stöðum

Hann telur þau íslenskunámskeið sem eru í boði vera oft á óhentugum tímum og á stöðum sem geti verið erfitt að komast á. Einnig eru þessi námskeið dýr og fólk veit ekki að það getur fengið endurgreitt í gegnum stéttarfélagið.

„Mér finnst líka að Íslendingar þurfi að vera aðeins betri í að skipta ekki yfir í ensku þegar þeir lenda í einstaklingum sem eiga íslensku ekki að móðurmáli. Þetta snýst um að finna gott jafnvægi.“

Barry segist aldrei hafa íhugað að gefast upp á íslenskunni. Hann hafði gaman af öllu ferlinu. „Þetta er líklega eitt erfiðasta tungumál í heimi til að læra en fyrir mig var það hluti af skemmtuninni. Að tala tungumál sem kannski hálf milljón manns á jörðinni talar.

Tungumálið aðgangur að samfélaginu

Hann hvetur alla búsetta á Íslandi til að reyna að ná tökum á málinu. Burtséð frá ástæðum þeirra fyrir því að búa hér og hversu lengi fólk ætlar að dvelja mælir hann með því að læra tungumálið, að minnsta kosti grunnatriði tengd daglegu lífi.

Ljósmynd/Barry Ward

„Að læra tungumálið hleypti mér inn í samfélagið. Ég held virkilega að það sé lykillinn fyrir fólk sem vill kalla Ísland heimili sitt, fólk verður að læra tungumálið.“

Ráð hans til þeirra sem vilja ná tökum á íslenskunni er að einblína á sjálfan sig og það sem maður sjálfur vill fá úr lærdómnum.

„Sættu þig við að þetta getur verið erfitt, enda er þetta er mjög erfitt tungumál. Taktu það bara í sátt, keyrðu í þetta og hafðu gaman af því. Það er það sem mér finnst og það er mín saga.

Framtíðin er á Íslandi

Barry segist spenntur fyrir komandi tímum. Hann og Una Dóra keyptu sér nýlega íbúð saman, sem þau hafa gert upp að miklu leyti. Hann hefur einnig gengið til liðs við sölustjórnunarteymið hjá The Reykjavík Edition. „Spennandi áskorun sem ég er mjög spenntur fyrir að takast á við og gæti falið í sér fjölda tækifæra í framtíðinni,“ segir hann. 

„Ég er núna að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Ég þarf eitt skjal í viðbót og þá get ég lagt inn umsóknina mína formlega og vonandi fengið fallegt lítið blátt vegabréf í kjölfarið. Ég hlakka til dagsins þegar ég get formlega kallað mig Íslending, jafnvel þó að mér líði nú þegar eins og Íslendingi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert