Árásarmaðurinn hefur hótað Helga árum saman

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir manninn sem réðst á tvo starfsmenn verslunarinnar Ok Market í Valshverfinu með hníf vera þann sama og staðið hefur í hótunum við sig árum saman.

„Ég hef þurft að biðja börnin mín síðustu þrjú árin að opna aldrei útidyrnar áður en þau skoða hver er þar á ferð í myndavélakerfi fyrst,“ segir Helgi.

Maðurinn hlaut dóm í Landsrétti fyrir ári síðan. Meðal annars fyrir að veitast að Helga með hótunum. Sakarefni í heild voru líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, brot gegn sóttvarnalögum, brot gegn valdstjórninni, fyrir að gabba lögreglu, brot gegn vopnalögum, skjalafals og umferðarlagabrot.

Helgi hefur áður sagt frá því að hann hafi mátt sæta líflátshótunum árum saman í samtali við Morgublaðið. 

Fékk Helga á heilan 

Helgi segir hótanirnar hafa hafist árið 2020 í kjölfar þess að mál sem maðurinn var aðili að var látið niður falla þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar. Helgi hafði staðfest ákvörðun lögreglustjóra um að ekki væri tilefni til að rannsaka málkið.

„Svo fékk hann mig á heilan eftir það,“ segir Helgi.

Síðan þá hefur maðurinn að sögn Helga sent fjölda tölvupósta og komið tvívegis á vinnustað hans hjá ríkissaksóknara og hótað Helga lífláti. Að sögn Helga hefur hann ekki frekari úrræði en aðrir borgarar í svona aðstæðum.

„Hann sá mig og öskraði á mig: I will kill you,“ segir Helgi.

Tvívegis hefur hnífamaðurinn fengið dóm fyrir hótanir í garð Helga. Hann segir að síðasta hótunarbréf hafi borist í október síðastliðnum en árás mannsins á starfsfólk OK sé óþægileg áminning um liðin ár. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Margsinnis komist í kast við lögin 

Ég þarf ekki að búast við honum við útidyrnar með hníf í hönd, né börnin mín og konan, næstu fjórar vikur ef þetta stendur,” segir Helgi.

Maðurinn hefur margsinnis komist í kast við lögin og er af erlendu bergi brotinn. Helgi segir í færslu á Facebook um málið að honum þyki merkilegt að ekki sé búið að vísa manninum af landi brott og telur sökina liggja hjá Alþingi.

„Það skiptir greinilega minna máli öryggi okkar sem vinnum í kerfinu fyrir almenning og öryggi fjölskyldna okkar, þar með talið lögreglumanna sem hafa haft af honum afskipti. Heldur skiptir meira máli að veita slíkum manni uppihald og framfærslu úr sameiginlegum sjóðum,“ segir Helgi á Facebook og vitnar svo í orð Kára Stefánssonar. 

„Ég held að Kári Stef hafi rétt fyrir sér við Íslendingar erum líklega heimskasta þjóð í heimi, í það minnsta sú aumasta,“ skrifar vararíkissaksóknarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert