Miklar skemmdir á Hafnartúnshúsinu

Húsið er mikið skemmt en stendur enn.
Húsið er mikið skemmt en stendur enn. mbl.is/Óttar

Hafnartúnshúsið á Selfossi er mikið skemmt eftir að eldur kviknaði í því í gærkvöldi. Lögregla tók við vettvangi í nótt, en eldsupptök eru ókunn.

Slökkviliðsmenn stóðu öryggisvakt í nótt og voru síðustu menn farnir um þrjúleytið.

Þetta segir Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is.

Eldsupptök eru ókunn.
Eldsupptök eru ókunn. mbl.is/Óttar

Húsið stendur enn

Um 30 slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu tóku þátt í aðgerðum og segir Lárus slökkvistarf hafa gengið vel, en því var að mestu lokið um eittleytið.

„Húsið er mjög mikið skemmt og mikill eldur sem var á efstu hæðinni. En húsið stendur uppi ennþá,“ segir Lárus.

Ekki er talið að neinn hafi verið í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

Rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi hefur eldsupptök til rannsóknar sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Um er að ræða gamalt timburhús og því mikill eldsmatur í því og því ljóst að öflugt starf slökkviliðsmanna forðaði því að húsið brynni til grunna. Þrátt fyrir að húsið standi enn má þó telja að það sé gerónýtt,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi.

Um 30 slökkviliðsmenn tóku þátt í aðgerðum.
Um 30 slökkviliðsmenn tóku þátt í aðgerðum. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert