Nýr fríverslunarsamningur við Indland undirritaður

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Nýr fríverslunarsamningur milli Indlands og EFTA-ríkjanna, það er Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, var undirritaður í Nýju Delí dag. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. Í samningnum er kveðið á um tollkjör, skuldbindingar í þjónustuviðskiptum, vernd hugverka, fjárfestingar, viðskipti og sjálfbæra þróun sem og úrlausn deilumála ef upp koma.

„Samningurinn hefur mikla þýðingu fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og skapar traustan grunn fyrir framtíðarviðskipti við Indland. Þá styrkir hann einnig pólitísk samskipti Íslands og EFTA-ríkjanna við fjölmennasta lýðræðisríki heims og fimmta stærsta hagkerfið á heimsvísu sem er í stöðugum vexti,“ er haft eftir utanríkisráðherra.

Tollfrelsi eða umtalsverð lækkun

Fram kemur að samningurinn bæti markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands. Frá gildistöku hans muni sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Ísland flytur út ýmist njóta fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar.

„Þrátt fyrir miklar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða til Indlands tryggir samningurinn Íslandi tollfríðindi fyrir lambakjöt, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og óáfenga drykki svo eitthvað sé nefnt.“

Segir einnig að skuldbindingar sem Ísland taki á sig varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur séu sambærilegar við fyrri fríverslunarsamninga Íslands á vettvangi EFTA.

Nær samningurinn einnig til þjónustuviðskipta yfir landamæri, réttindi til stofnsetningar, innlendar reglur og tímabundinn aðgang fyrir þjónustuveitendur og tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang og fyrirsjáanleika á Indlandsmarkaði. Ísland fær einnig skuldbindingar á sviðum orkutengdrar þjónustu en indversk stjórnvöld hafa áform um að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert