Framkvæmdastjóri rútufyrirtækis hefur haft samband við Þór Sigurgeirsson bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og beðið hann afsökunar á spjöllum sem bílstjóri á vegum fyrirtækisins olli við bílastæði á Gróttusvæðinu.
Jarðvegur var skemmdur við bílastæðið á föstudagskvöldið og blasti ófögur sjón við Seltirningum í gærmorgun.
Þór kallaði eftir afsökunarbeiðni vegna atviksins en framkvæmdastjóri rútufyrirtækis hafði samband í dag og baðst innilegrar afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins, sögn Þórs.
„Það sem hefur gerst eftir þessi spjöll er að rútufyrirtækið hefur haft samband við mig og beðist afsökunar. Ég er ánægður með það, mér finnst það stálheiðarlegt,“ segir Þór í samtali við mbl.is.
Hann vildi ekki segja til um hvaða rútufyrirtæki hafi verið að ræða en málið er nú komið í hendur lögreglu og tryggingafélaga.
Svæðið þar sem skemmdirnar voru unnar er vinsæll áningastaður bæði ferðamanna og heimafólks sem meðal annars leitast til þess að virða fyrir sér norðurljósin.
„Ég sé það alveg á þessu sem að hefur gerst núna að við þurfum að setja miklar aðgerðir í það að verja svæðið. Þetta er náttúrulega friðað og við þurfum að passa vel upp á þetta,“ segir Þór.
Hann segir tvö tilboð hafi borist frá fyrirtækjum um að sinna gjaldtökunni. Það sé óákveðið hvað verði gert. „Við eigum eftir að taka snúning um þetta í pólitíkinni“.