„Þetta gengur gegn öllum lýðræðishefðum,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um ákvörðun meirihluta borgarráðs um að neita fulltrúum minnihlutans um sæti í nýrri nefnd borgarinnar.
Ákveðið var á fundi borgarráðs á mánudag að koma á fót áhættunefnd Reykjavíkurborgar. Nefndin verður skipuð borgarstjóra, formanni borgarráðs, borgarritara og sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að minnihluta borgarstjórnar yrði gefinn kostur á að skipa fulltrúa í nefndinni. Tillagan var felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins.
Kjartan bendir á að borgarstjórn sé fjölskipað stjórnvald. Þá sé löng hefð fyrir því að þegar nefndir séu skipaðar fái minnihlutinn sinn fulltrúa. Spurður hvers vegna hann telji að meirihlutinn hafni því að veita minnihlutanum sæti í nefndinni segir Kjartan:
„Það er alveg ljóst að það verða lagðar fram mikilvægar upplýsingar á fundum nefnarinnar. Mig grunar að meirihlutinn vilji halda þessum upplýsingum frá okkur í minnihlutanum eins og hægt er. Almennt er viðleitni til þess að gefa litlar upplýsingar um fjármál borgarinnar, finnst mér. Þetta er hluti af því, að takmarka aðgang minnihlutans að upplýsingum, kannski í von um að minnihlutinn tali minna um fjármálin.“