Vél Icelandair í lykkjuflugi á höfuðborgarsvæðinu

Vélin þveraði höfuðborgarsvæðið nokkrum sinnum áður en hún hélt norður …
Vélin þveraði höfuðborgarsvæðið nokkrum sinnum áður en hún hélt norður í land. Skjáskot/Flightradar24

Flugvél Icelandair sem er á leið til Washington valdi sér heldur óvenjulega leið að því er virðist ef tekið er mið af vefsvæði Flightradar24. Flugvélin hefur nokkrum sinnum lagt lykkju á leið sína og flaug yfir höfuðborgarsvæðið ítrekað áður en hún hélt norður í land. 

Á vefsvæði Flightradar24 má sjá vélina fara af stað yfir Faxaflóa áður en breytt var um stefnu og haldið yfir Reykjavíkurflugvöll áður en hún fór yfir Kópavog og eftir Reykjanesbrautinni þar sem henni var snúið við. Því næst þveraði hún Reykjavík yfir Vogahverfi og Skeifu og svo vestur í bæ áður en henni var haldið norður í land.

Þangað fór hún eftir að hafa flogið yfir Borgarnes og Akranes fyrst. Henni var svo snúið við í Eyjafirði. Þaðan fór vélin að Dalvík þar sem hún virðist nú komin í beina stefnu til Washington og er nærri Grænlandsströndum þegar þetta er skrifað.

Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Icelandair eða Isavia við vinnslu fréttarinnar.

Uppfært kl. 11.57: Vélin er á vegum Heimsferða Icelandair og er án farþega. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um ástæðu flugferðarinnar á þessari stundu. 

Vélin er nú við Grænlandsstrendur.
Vélin er nú við Grænlandsstrendur. Skjáskot/Flightradar24
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert