„Ég hef verið að klóra mér aðeins í hausnum, til hvers við erum ríkisstjórn þegar við erum bara með Samtök atvinnulífsins sem semja fyrir okkur fjárlög?“
Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is varðandi 80 milljarða króna aðgerðarpakka stjórnvalda vegna kjarasamninga. Ekki liggur fyrir hvernig aðgerðarpakkinn verður fjármagnaður.
„Ríkisstjórnin setti til hliðar tæplega 20 milljarða í almenna varasjóðnum fyrir kjarasamninga þannig þau voru alveg búin að gera ráð fyrir því í fjármálaáætlunum hjá sér. En það er ekki búið að gera kjarasamninga hjá opinbera markaðnum sem þessi peningar eiga að fara í líka. Ef þetta er að kosta ríkið þennan pening þá er búið að klára peninginn sem átti í raun að fara í kjarasamning opinberra starfsmanna," segir Björn og bætir við:
„Þetta er rosalega skrýtið og þetta er rosa mikið stefnuleysi hjá ríkisstjórninni.“
Björn segir að það séu nokkrar leiðir til þess að fjármagna þennan aðgerðarpakka án þess að hafa neikvæð áhrif á Þróun verðbólgunnar. Nefnir hann sem dæmi hækkun fjármagnstekjuskatts.
„Á móti væri hægt – og ekkert óeðlilegt – að lækka skatta þar sem skóinn kreppir að. Þannig þetta gæti verið skattajöfnun frekar heldur en skattahækkun. Það er í rauninni aðgerð sem myndi ekki hafa þensluhvetjandi áhrif á hagkerfið.“
Það dugar ekki fyrir 80 milljörðum er það nokkuð?
„Nei nei af því að útfærslan er náttúrulega þannig að það er ekki inn í því að minnka álögurnar á þann hátt til þeirra sem eru núna í húsnæðiserfiðleikum eða svoleiðis. Þetta er sem sagt önnur útfærsla á kjarasamningum. En víst þeir eru svona þá þarf að fjármagna þá á einhvern annan hátt, það má ekki vera þensluhvetjandi og þar höfum við bent á fjármagnstekjuskattinn.“
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra á Alþingi í dag hvort að hún hefði skoðað fjármögnunartillögur Samfylkingarinnar um að hækka fjármagnstekjuskattinn, veiðigjaldið eða að afturkalla bankaskatt. Spurði hún út í þetta í óundirbúnum fyrirspurnum vegna aðgerðarpakka stjórnvalda.