Einn sakborninganna ekki af víetnömskum uppruna

Skýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um matvælalagerinn í Sóltúni er hluti rannsóknarinnar. …
Skýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um matvælalagerinn í Sóltúni er hluti rannsóknarinnar. Þar kom meðal annars fram að grunur léki á því að fólk hefði dvalið á lagernum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir sakborningunum sex sem sitja í varðhaldi vegna gruns um mansal, pen­ingaþvætti, brot­ á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga og um skipu­lagða brot­a­starf­semi, eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu á þriðjudag í síðustu viku. 

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Grímur segir rannsókn málsins enn í fullum gangi. Þessi stundina sé verið að vinna úr þeim gögnum sem lögregla hefur í höndunum og ekki útilokað að farið verði í frekari húsleitir eða yfirheyrslur. 

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu með stöðu sakbornings 

Níu eru með stöðu sakbornings í málinu en þar af eru sex í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna og eru þau látin sæta einangrun að sögn Gríms. Þeirra á meðal er Davíð Viðars­son, áður Quang Lé, en hann er eigandi nokkurs fjölda veitingastaða, gistiþjónustu og þrifafyrirtækisins Vy-þrif, sem talin eru tengjast málinu.

Spurður hvort allir sakborningarnir séu af víetnömskum uppruna svarar Grímur því neitandi, það sé einn sem ekki er af víetnömskum uppruna. 

Hvað brotin varðar segir Grímur lögregluna vinna eftir áfallamiðaðri nálgun og að rannsókn málsins sé forgangsraðað eftir því. Þannig sé fyrst horft til þess hvort einstaklingar hafi verið misnotaðir, til að mynda í formi mansals.

Ólöglegur matvælalager

Þannig sé peningaþvætti og fíkniefnabrot hluti af rannsókninni en ekki hægt að leggja mat á hver ávinningurinn sé af meintri ólögmætri starfsemi að svo stöddu. 

Spurður hvort það varði við lög að selja ónýt eða útrunnin matvæli, sambanber skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um matvælalagerinn í Sóltúni sem er hluti rannsóknarinnar, kveðst Grímur telja svo vera. Enda sé það á skjön við eðlilega viðskiptahætti að selja útrunnin matvæli, sérstaklega ef ásetningur er til þess.  

Til útskýringar snýr skýrsla heilbrigðiseftirlitsins að ólöglegum matvælalager í Sóltúni þar sem lagt var hald á töluvert magn af matvælum sem geymd voru við þannig aðstæður að þau voru óneysluhæf. Þar kom jafnframt fram að grunur léki á að fólk hefði dvalið á lagernum, en fyrrnefndur Davíð er einnig eigandi matvælalagersins.

Meint fórnarlömb verið viðræðugóð 

Eins og fram hefur komið er grunur að tugir séu fórnarlömb mansals í tengslum við málið. Það hefur jafnframt komið fram að meintum fórnarlömbum verði veitt tímabundið dvalarleyfi, séu þau ekki þegar með dvalarleyfi. Grímur segir tímabundna leyfið kallað umþóttunarleyfi. 

Ekki er um að ræða leyfi sem bundið er við rannsókn málsins eða málarekstur þess, heldur  gefur það meintum fórnarlömbunum tækifæri til þess að stunda virka atvinnuleit. Fái þau atvinnu er þeim síðan veitt atvinnu- og dvalarleyfi á þeim grundvelli, segir Grímur, en áréttir að þessi hluti málsins sé í höndum Útlendingastofnunar og Vinnueftirlitsins eftir atvikum. 

Almennt segir Grímur lögreglu hafa átt ágæt samtöl við þá sem grunur leikur á að hafi verið fórnarlömb mansals. Það sé því ekki eins og þekkt er í þessum málum að það sé erfitt að fá brotaþolana til að tjá sig um brotin.

„Oft á tíðum er vandamál við mansalsrannsóknir að brotaþolarnir eru ekki viljugir til að ræða við lögreglu. Vegna þess að maður getur sagt, í grófum dráttum, að þeir vita hvað þeir hafa en vita ekki alveg hvað þeir fá eða hvað er framundan ef þeir stíga út úr þeim aðstæðum sem þeir eru í.“

Spurður hvort lögreglan sé þessa stundina að rannsaka önnur mansalsmál kveðst Grímur ekki geta veitt upplýsingar um það. Um sé að ræða svokölluð frumkvæðismál lögreglu þar sem unnið er með upplýsingar og þær greindar áður en tekin er ákvörðun um að fara af stað með rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert