Eitthvað mun gefa eftir haldi landrisið áfram

Um 30 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn á Reykjanesskaganum frá …
Um 30 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn á Reykjanesskaganum frá miðnætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 30 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn á Reykjanesskaganum frá miðnætti og kvikumagnið heldur áfram að aukast undir Svartsengi.

„Það eru að mælast fleiri skjálftar núna og í gær heldur en dagana á undan en skýringin er sú að það er hægur vindur og þá mælast fleiri skjálftar inn í kerfið,“ segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.

Bjarki segir að magn kvikunnar undir Svartsengi sé orðið meira nú en fyrir kvikuhlaupið laugardaginn 2. mars.

Greinilega einhver fyrirstaða í jarðskorpunni

„Það mun eitthvað gefa eftir ef landrisið heldur áfram og það eru engar vísbendingar um að það sé að hægjast á því. Svo lengi sem það heldur áfram þá aukast líkurnar á kvikuhlaupi, eldgosi eða báðum atburðum,“ segir Bjarki.

Bjarki segir að það sé greinilega einhver fyrirstaða í jarðskorpunni og það sé ekki lengur greið leið eða nógu mikill þrýstingur svo kvikan geti komist upp á yfirborðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert