Kemur á óvart ef ekki dregur til tíðinda í vikunni

Síðasta eldgos á Reykjanesskaganum var 8. febrúar.
Síðasta eldgos á Reykjanesskaganum var 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að það muni koma sér á óvart ef ekki dregur til tíðinda á Reykjanesskaganum í þessari viku.

Rólegt hefur verið við kvikuganginn frá því lítið kvikuhlaup átti sér stað 2. þessa mánaðar. Kvikumagn undir Svartsengi hefur haldið áfram að aukast jafnt og þétt og er orðið meira nú en fyrir kvikuhlaupið í byrjun mánaðarins. Síðasta gos varð 8. febrúar og var það sjötta í röðinni á tæpum þremur árum.

„Það er einhver tregða í þessu en við sjáum skýr merki um að landrisið heldur áfram og það hægist ekkert á því að neinu ráði,“ segir Benedikt Gunnar við mbl.is.

Hann segir að erfitt sé að ímynda sér annað en að það fari af stað eitthvað kvikuhlaup innan ekkert langs tíma meðan þessi atburðarrás haldi áfram.

Alls konar hlutir sem geta tafið fyrir

„Þetta heldur ekki endalaust áfram í landrisi án þess að það gerist eitthvað miðað við það sem á undan er gengið. Auðvitað breytist kerfið og það eru alls konar hlutir sem geta tafið fyrir en ég verð að segja að það kæmi mér á óvart ef það færi ekki eitthvað að gerast í vikunni,“ segir Benedikt.

Benedikt segir að ef landrisið haldi áfram og ekkert gerist þá hafi eitthvað breyst í síðasta kvikuhlaupi. Hann segir að vel sé fylgst með framgangi mála og minnir á eldgos geti hafist með mjög skömmum fyrirvara, jafnvel innan við hálftíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert