„Svo halda menn bara áfram að kyngja“

Samsett mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gleðst yfir því að kjarasamningar hafi náðst en segir þetta vera taktískan sigur aðila vinnumarkaðarins, sem hafi nýtt sér veika stöðu ríkisstjórnarinnar til að láta ríkið borga reikninginn sem nemur 80 milljörðum króna.

„Þeir [Aðilar vinnumarkaðarins] tóku eftir veikleikum ríkisstjórnarinnar og ég held líka áhuga forsætisráðherrans á að taka einn lokasnúning fyrir hugsanleg stjórnarslit eða forsetaframboð,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is.

Ríkisstjórnin slegið Íslandsmet í ríkisútgjöldum

Ekki liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að svo stöddu hvernig greitt verður fyrir aðgerðarpakka stjórnvalda en hann hljóðar upp á 20 milljarða á ári næstu fjögur árin.

„Auðvitað hljótum við að gleðjast yfir því að það takist samningar til lengri tíma þó að enn sé á huldu um hvernig ríkið ætli að fjármagna sinn hluta. En það hefur nú svo sem verið þannig með mörg mál, að það er tilkynnt um eitt og annað, hjá þessari ríkisstjórn þar sem fjármögnun á að leysast einhvern veginn í framtíðinni.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, ítrekaði á Alþingi í dag að hægt væri að fara í niðurskurð sem væri ekki sársaukafullur. Enn fremur útilokaði hún skattahækkanir á millitekjuhópa. Sigmundur kveðst sáttur við svona málflutning en segir þó:

„Ef það er hægt að gera þetta sársaukalaust, af hverju í ósköpunum hefur það ekki verið gert á síðustu sjö árum þegar þessi ríkisstjórn hefur slegið öll Íslandsmet í ríkisútgjöldum, aukningu ríkisútgjalda – í krónum talið eða hlutfallslega – og ekki sýnt nein merki um það að ætla draga úr lántöku eða skattlagningu.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórninni velkomið að leita ráða hjá Miðflokknum

Spurður hvernig hann myndi sjálfur reyna að fjármagna þetta segir hann að Miðflokkurinn sé að vinna í tillögum um sparnað hjá hinu opinbera. Ef ríkisstjórnin vilji leita ráðgjafar hjá Miðflokknum þá muni þingmenn flokksins með glöðu geði hjálpa henni.

Spurður hvenær þetta verði kynnt segir hann að upphaflega hafi verið áætlað að kynna þetta í aðdraganda kosninga til að gefa almenning skýra mynd á það hvað stæði þeim til boða. Hann segir að „eins og hlutirnir eru að þróast núna“ þá ímyndi hann sér að þetta verði kynnt fyrr en síðar.

Telur kosningar vera í nánd

Nú ertu búinn að nefna mögulegt forsetaframboð forsætisráðherra og að mál séu að þróast á þann veg að þið þurfið að kynna þetta sparnaðarplan fyrr en síðar. Heldur þú að það séu kosningar í nánd?

„Já ég held það en ég treysti mér alls ekki til þess að spá um dagsetningar í þeim efnum því að maður hefur svo oft séð jafnvel yfirlýsingar ráðherra eða stjórnarþingmanna um að nú „gangi þetta ekki lengur, nú verða að vera breytingar annars er þetta bara búið“ en svo halda menn bara áfram að kyngja,“ segir Sigmundur.

Hann segir að það hljóti þó að koma kosningar fyrir 25. september 2025 „hvort sem það gerist með forsetaframboði Katrínar eða Sjálfstæðisflokkurinn uppgötvi einhver gömul prinsipp, eða hvernig sem það verður.“

Katrín hefur reglulega verið orðuð við Bessastaði. Sjálf kveðst hún …
Katrín hefur reglulega verið orðuð við Bessastaði. Sjálf kveðst hún ekki hafa tekið afstöðu til mögulegs framboðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert