Tveir fulltrúar DEA aðstoðuðu lögreglu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut liðsinnis tveggja fulltrúa frá DEA í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut liðsinnis tveggja fulltrúa frá DEA í umfangsmiklum aðgerðum sínum á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar tveggja fulltrúa frá bandaríska fíkniefnaeftirlitinu, DEA, í umfangsmiklum aðgerðum sem farið var í á þriðjudaginn í tengslum við mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi. 

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yf­ir­maður miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu, við mbl.is en Rúv greindi frá. Í síðustu viku greindi mbl.is þó fyrst frá því að hluti af því sakarefni sem var til skoðunar hjá lögreglu varðaði framleiðslu fíkniefna. 

Töluvert mikil hjálp frá víetnömskumælandi fulltrúanum

Spurður hvers vegna DEA hafi verið með aðkomu að málinu svarar Grímur því til að lögreglan sé í samskiptum og samvinnu við lögregluyfirvöld og stofnanir víða um heim. Í undirbúningi þessarar rannsóknar hafi lögreglunni síðan boðist að fá aðstoð frá DEA sem þau þáðu. 

Hvers vegna býðst ykkur þessi aðstoð? 

„Í þessu tilfelli þá kom hingað maður sem talar víetnömsku og það var töluvert mikla hjálp og aðstoð að fá frá honum vegna þess,“ svarar Grímur og útskýrir að aðkoma DEA hafi verið að frumkvæði lögreglunnar á Íslandi en ekki bandarískra yfirvalda. 

Ráðist var í húsleitir á fjölmörgum stöðum. Lögreglan innsiglaði meðal …
Ráðist var í húsleitir á fjölmörgum stöðum. Lögreglan innsiglaði meðal annars Kastala Guesthouse. Eggert Jóhannesson

Beinni aðkoma en oft áður

Þekkt er að lögreglan á Íslandi eigi í samstarfi við lögregluembætti á Norðurlöndunum vegna mála sem kunna að koma upp. Ekki hefur verið jafn tíðrætt um að lögreglan njóti liðsinnis frá Bandaríkjunum en Grímur segir lögregluna þó hafa verið í samskiptum við DEA í „mörg, mörg ár.“ 

Hann áréttir þó að aðkoman hafi að þessu sinni verið með beinni hætti en oft áður. 

Spurður hvers vegna hafi verið óskað eftir aðstoð frá Bandaríkjunum en ekki Norðurlöndunum að þessu sinni ítrekar Grímur að fyrst og fremst hafi verið óskað aðstoðar DEA vegna víetnömskumælandi lögreglumannsins sem kom þeim bauðst aðstoð frá. 

Grímur segir lögregluna jafnframt hafa verið í samskiptum við lögregluna í Noregi vegna málsins, en það hafi þó engin komið frá þeim, hingað til lands, í tengslum við málið. 

Aðstoðuðu við fíkniefnahluta málsins 

Fulltrúar frá DEA komu þó ekki einungis hingað til lands vegna kunnáttu annars þeirra í víetnömsku, heldur jafnframt til að aðstoða við fíkniefnahluta málsins að sögn Gríms. 

Fíkniefnahluti málsins varðaði dreifingu og sölu á fíkniefnum og eftir atvikum framleiðslu á fíkniefnum segir Grímur. Hann áréttir að engin merki hafi fundist um fíkniefni í aðgerðunum en bætir við: 

„Markmiðið var að hafa aðstoð við slíkt ef til kæmi.“

Einn sakborninganna af íslenskum uppruna

Níu eru með stöðu sak­born­ings í mál­inu en þar af eru sex í gæslu­v­arðhaldi á grund­velli rann­sókn­ar­hags­muna. 

Þeirra á meðal er Davíð Viðars­son, áður Quang Lé, en hann er eig­andi nokk­urs fjölda veit­ingastaða, gistiþjón­ustu og þrifa­fyr­ir­tæk­is­ins Vy-þrif, sem tal­in eru tengj­ast mál­inu.

Grímur sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að einn sakborninganna væri ekki af víetnömskum uppruna. Hann staðfestir nú að sá sé af Íslenskum uppruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert