„Gríðarlegur léttir“ og „áfellisdómur fyrir ákæruvaldið“

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur þeirra Sindra …
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar, segja dóm héraðsdóms í dag vera mikinn létti en á sama tíma áfellisdóm yfir vinnubrögðum lögreglu og ákæruvalds. Að öllu jöfnu telur Sveinn Andri að Sindri Snær og Ísidór muni sleppa við afplánun í fangelsi. Þeir telja dóminn geta verið fordæmisgefandi fyrir það hvenær um er að ræða tilraun til verknaðar og hvenær ekki.

Sindri Snær og Ísidór voru í dag sýknaðir af ákæru um til­raun til hryðju­verka og hlut­deild í til­raun til hryðju­verka. Þeir voru hins vegar sakfelldir fyrir brot gegn vopnalöggjöf og var Sindri Snær dæmdur í 24 mánaða fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi.

„Þannig að ippon“

Eftir dómsuppkvaðninguna sagði Sveinn Andri að þeir hefðu einungis verið dæmdir fyrir þau brot sem þeir hefðu að mestu játað. „Þannig að ippon,“ sagði hann og vísaði þar í júdó-bragðsins og að um sigur varnarinnar hafi verið að ræða.

Gríðarlegur léttir að þeir hafi verið hreinsaðir af þessum ásökunum um tilraun til hryðjuverka og hlutdeild í tilraun. Eins og lá fyrir nánast allt frá upphafi játuðu þeir ákveðin vopnalagabrot og þeir eru dæmdir fyrir það,“ sagði Einar Oddur.

Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara.
Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissaksóknari metur næstu skref

Spurðir út í næstu skref sagði Sveinn Andri að boltinn sé nú hjá ríkissaksóknara. „Embætti ríkissaksóknara metur það sjálfsagt hvort hann telur tilefni til áfrýjunar. Í mínum huga er ekki tilefni til áfrýja þessu áfram.  Þó þetta sé fyrsta hryðjuverkamálið þá reynir þarna bara á tilraun og ég hef trú á því að héraðsdómur hafi farið bara eftir skólabókinni og fræðiritunum um tilraun og hlutdeild í tilfelli hans umbjóðanda [umbjóðanda Einars Odds].“ Bætti hann við að hann sæi engin rök sem mæli sérstaklega fyrir áfrýjun.

Sleppa að öllu jöfnu við afplánun í fangelsi

Einar Oddur sagði dómana kannski heldur í þyngri kantinum þegar komi að vopnalagabrotum, en að þau hafi í sjálfu sér verið nokkuð umfangsmikil og ekki reynt á það áður.

„Tek undir þetta. Miðað við ákæruna og sakfellinguna eru þetta óvenju alvarleg vopnalagabrot. Náttúrulega framleiðsla á vopnum og breytingar. En að öllu jöfnu á þetta að þýða að okkar umbjóðendur eiga ekki að þurfa að afplána í fangelsi heldur geta tekið út sína dóma í samfélagsþjónustu,“ sagði Sveinn Andri jafnframt.

Sveinn Andri sagði niðurstöðu að mörgu leyti fordæmisgefandi og að dómurinn gæti orðið „skólabókadæmi fyrir laganema framtíðarinnar um tilraun og hvenær tilraun telst verða refsiverða háttsemi.“

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson voru kátir eftir …
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson voru kátir eftir dómsuppkvaðninguna og brugðu á leik þegar þeir ræddu við fréttamenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þetta er áfellisdómur fyrir ákæruvaldið og ríkislögreglustjóra“

Spurðir út í hvað þetta þýði fyrir ákæruvaldið segir Sveinn Andri: Við skulum ekkert vera að tala í kringum hlutina. Þetta er áfellisdómur fyrir ákæruvaldið og ríkislögreglustjóra. Það er bara þannig.“

Tók Einar Oddur undir þetta og bætti við að dómurinn væri í samræmi við málflutning varnarinnar um að of geyst hafi verið farið í upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka