Málið til marks um skort á leiðtogahæfni Krónunnar

Ólafur Hauksson gagnrýnir ákvörðun Krónunnar um að slíta ekki samstarfi …
Ólafur Hauksson gagnrýnir ákvörðun Krónunnar um að slíta ekki samstarfi við Wok On fyrr. Samsett mynd

Ólafur Hauksson, hluthafi í Festi, móðurfélags Krónunnar, og almannatengill, segir það til marks um skort á leiðtogahæfni hjá stjórnendum Krónunnar að loka ekki fyrr þeim veitingastöðum Wok On sem höfðu aðsetur í versluninni vegna skaðabótaskyldu.

Með aðgerðarleysinu segir hann stjórn Krónunnar og stjórnendur hafa brugðist hluthöfum sínum. 

Þetta segir Ólafur í samtali við mbl.is í kjölfar skoðanapistils sem birtist á Vísi fyrr í dag í hans nafni. Í pistlinum fer Ólafur yfir viðtal við Ástu Fjelsdsted, forstjóra Festis, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þar sem fjallað er um samning Wok On við Krónuna. 

„Þau vita að það er ekki allt í lagi“

Greint var frá því í síðustu viku að Krónan hefði slitið leigusamningi sínum við veitingastaðakeðjuna Wok On, en staðirnir voru starfræktir á þremur stöðum innan Krónunnar. Tengdist uppsögnin umfangsmiklum aðgerðum lögreglu á þriðjudaginn í síðustu viku, en aðgerðirnar beindust meðal annars gegn Davíð Viðar­ssyni, áður Quang Lé, eig­anda Wok On. 

Í viðtali við Morgunblaðið sagði Ásta að samn­ingi­ Krónunnar við Wok On hafi verið sagt upp stuttu eft­ir að fregn­ir af ólög­leg­um mat­vælala­ger í Sóltúni komust í há­mæli. Hún tekur fram að Krónan hafi vilja slíta samningnum þá þegar, en vegna 12 mánaða uppsagnarákvæðis hafi það ekki verið hægt því þá hefði Krónan orðið skaðabótaskyld. 

Það er þetta sjónarmið Ástu og annarra stjórnenda Krónunnar sem Ólafur kveðst fyrst og fremst vera að gagnrýna. Að stjórnendur láti hræðslu við að greiða skaðabætur koma í veg fyrir að Wok On sé gert að loka stöðum sínum í Krónunni, segir hann. 

„Þau vita að það er ekki allt í lagi, annars væru þau ekki að reyna að losna undan samningnum,“ segir Ólafur og að Krónan hafi velt háum fjárhæðum á síðasta ári. „Einhverjar skaðabætur hefðu bara orðið smá partur af því. 

Wok On leyft að halda áfram með sitt „eiturbras“

„Þess í stað leyfa þau þessum aðila að halda áfram að vera með sitt eiturbras, sem ég vil kalla, inni í verslunum Krónunnar. Það er mjög undarlegt að leggja svona sterkt vörumerki í hættu,“ segir Ólafur og bætir við: 

„Það má kannski bara segja að það hafi verið heppni að fólk hafi ekki fengið matareitrun af þessum sóðaskap og þessari umgengni um matvælin. Þarna var verið að taka óþarfa áhættu og stefna verðmætu vörumerki í hættu.“

Að sögn Ólafs hefði það ekki orðið neitt gamanmál fyrir eigendur Krónunnar, eða hluthafa, ef upp hefðu komið virkilega slæm mál í tengslum við starfsemi Wok On í verslunum Krónunnar. 

„Mér finnst þetta ákveðinn skortur á leiðtogahæfni hjá stjórnendum þessa fyrirtækis að hafa ekki séð stóru myndina og tekið réttar ákvarðanir.“

Vissu nógu mikið til að segja samningnum upp 

Heldur þú að þau hafi kannski ekki áttað sig á því hvað var að eiga sér stað. Ásta hefur talað um skort á upplýsingagjöf frá heilbrigðiseftirlitinu. Heldur þú að þau hafi haft allt fyrir framan sig sem þau þurftu? 

„Það þarf ekkert að vera og ég er alls ekki að fullyrða að þau hafi vitað allt um þetta, en þau vissu nóg til að vera æst í að segja upp þessum samningum,“ segir Ólafur og bætir við: 

„Það hefur ekki verið upplýst um hvað Krónan vissi um þessa matsölustaði sem var nógu slæmt til að þau vildu segja samningnum upp, en ekki nógu slæmt til þess að vilja eiga á hættu að borga einhverjar bætur.“

Hann segir vel mega vera að samningnum hafi verið sagt upp af áhyggjum um orðspor Krónunnar, en þess þá heldur hefði hann vilja sjá stjórnendur Krónunnar drífa í því að losa sig við Wok On. 

„Þau þurftu ekki endilega að vita að ástandið þarna væri svo slæmt eins og raun bar vitni.“

Sérkennilegt að tryggja sér ekki upplýsingar um eftirlit 

Til viðbótar segir Ólafur sérkennilegt að hleypa matsölustað inn í verslanir Krónunnar án þess að tryggja að stjórnendur Krónunnar hafi fullkomið eftirlit og yfirlit um það sama og heilbrigðiseftirlitið. 

„Eins og ég skrifaði í greinina þá finnst mér hálfgerður aumingjagangur að ganga ekki á eftir upplýsingum,“ segir Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert