Meira magn af kviku en fyrir síðasta gos

22 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn frá miðnætti.
22 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn frá miðnætti. mbl.is/Árni Sæberg

Enn er allt með kyrrum kjörum á Reykjanesskaganum. Kviku­magn und­ir Svartsengi held­ur áfram að aukast og er orðið meira en fyrir síðasta eldgos sem var 8. febrúar.

Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hefur skjálftavirknin verið meiri síðustu tvo daga en undanfarið. Mögulega mælast þó fleiri skjálftar nú vegna veðuraðstæðna.

Frá miðnætti hafa mælst 22 skjálftar við kvikuganginn, flestir þeirra sunnan megin í ganginum.

Ekki skjálftavirkni í undanfara eldgoss

„Þetta er ekki skjálftavirkni sem við erum að búast við að sjá í undanfara eldgoss. Sú skjálftavirkni væri þéttari í kringum Sýlingarfell. Þetta er bara skjálftavirkni vegna kólnandi kvikuganga á þessu svæði og við erum ekki búin að sjá nein merki um að þetta sé að fara af stað,“ segir Salóme við mbl.is.

Hún segir að kvikusöfnun og landris haldi áfram með jöfnum hraða. Í gær höfðu 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið sem er meira magn en fyrir eldgosið þann 8. febrúar.

Hún segir áfram að eldgos geti hafist með mjög skömmum fyrirvara. 

„Þetta getur gerst mjög hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert