Nasistafána flaggað í Hraunbæ

Mörgum brá eflaust í brún er þeir gengu fram hjá …
Mörgum brá eflaust í brún er þeir gengu fram hjá Hraunbæ 42 í gær. Ljósmynd/Facebook

Hakakross blasti við þeim er gengu fram hjá Hraunbæ 42 í gær, en stærðarinnar nasistafáni prýddi glugga yfir útidyrahurð fjölbýlishússins.

Íbúi í hússins staðfestir að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu og telur að lögregla hafi haft afskipti af íbúa íbúðarinnar í kjölfarið.

Í samtali við mbl.is kvaðst íbúinn ekki vita hvort fáninn hefði verið fjarlægður en ljósmyndari mbl.is hefur staðfest að fáninn sé á bak og burt. 

Segir íbúinn flesta ganga inn um inngang hinum megin við húsið og því ekki víst að íbúar hafi orðið varir við fánann á undan vegfarendum við framanvert húsið. 

„Við sáum þetta bara allt í einu, ég veit ekki hvenær.“

Rólegheita drengur

Spurður hvort hann þekki til umrædds íbúa kveðst viðmælandi mbl.is ekki geta sagt það. Ekki hafi þó verið ónæði af honum áður eða hafi viðmælandi orðið var við að íbúinn hafi sýnt merki um skoðanir sem þessar áður.

„Bara rólegheita drengur, sem ég veit ekkert um og þekki ekki neitt.“

Formaður húsfélagsins, Ágúst Ingi Sigurðsson, kvaðst ekki þekkja til málsins í samtali við mbl.is en sagði það afar leitt ef rétt reyndist. 

Ekki náðist í fulltrúa lögreglunnar á lögreglustöð 4, sem sinnir útköllum í Árbæ, við gerð þessarar fréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert