Segjast hafa brugðist strax við

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Krónan hefur gripið til allra þeirra samningsbundnu og lagalegu úrræða sem hafa verið tæk á hverjum tíma með velferð viðskiptavina að markmiði. Það er því fjarstæðukennt að halda því fram að Krónan hafi fórnað hagsmunum viðskiptavina sinna til að forða Krónunni frá hugsanlegri skaðabótaskyldu,“ segir í yfirlýsingu sem mbl.is hefur borist frá Krónunni í kjölfar fréttar um gagnrýni Ólafs Haukssonar almannatengils á viðbrögð stjórnenda verslunarinnar í tengslum við Wok On-málið.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Guðrúnu Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóra að Krónan þurfi að gera ítarlegri kröfur á þá sem reka sjálfstæð veitingarými innan verslana varðandi upplýsingagjöf úr niðurstöðum Heilbrigðiseftirlitsins. Krónan muni gera þessar niðurstöður sýnilegar viðskiptavinum staðanna þannig að öllum verði ljóst áður en þeir versla á viðkomandi stöðum hvaða einkunn þeir fá frá Heilbrigðiseftirlitinu. 

Yfirlýsing Krónunnar í heild sinni:

Krónan áréttar að í nóvember á síðasta ári var samningi við Wok On sagt upp með samningsbundnum uppsagnarfresti. Var þetta gert í kjölfar fregna af matvælalagernum í Sóltúni. Á þessum tímapunkti lá ekki fyrir það sem komið hefur fram í fjölmiðlum síðustu daga um rekstur þessara staða; rökstuddur grunur um mansal og annað glæpsamlegt athæfi. Þegar það lá fyrir var stöðunum lokað, samningi rift og merkingar teknar niður.  

Það skal tekið fram að Wok On var rekið af sjálfstæðum rekstraraðilum og á eigin starfsleyfi. Í yfirlýsingu frá Wok On sem birt var í fjölmiðlum 10. nóvember sl. var tiltekið að eigandi lagersins í Sóltúni kæmi ekki að rekstri Wok On staðanna og að birgjar væru allt viðurkenndir aðilar. Það sama var gert á fundum með Krónunni, þar sem stjórnendur Krónunnar voru fullvissaðir um að engin matvæli frá umræddum matvælalager hefðu komið inn á stað Wok On í Krónunni. Að auki staðfestu þáverandi forsvarsmenn Wok On að staðurinn uppfyllti öll skilyrði um heilnæmi og meðferð matvæla en það kemur skýrt fram í samningum Krónunnar að heilbrigðisreglugerðum skuli fylgt í hvívetna af hálfu rekstraraðila. Krónan treysti því að starfsleyfi Wok On yrði afturkallað ef starfsemin uppfyllti ekki skilyrði Heilbrigðiseftirlitsins. Einnig er vert að taka fram að Krónan hefur ítrekað fengið hæstu einkunn frá Heilbrigðiseftirlitinu og alltaf haft það að markmiði að viðhalda hæstu stöðlum í þeim efnum.  

Krónan hefur gripið til allra þeirra samningsbundnu og lagalegu úrræða sem hafa verið tæk á hverjum tíma með velferð viðskiptavina að markmiði. Það er því fjarstæðukennt að halda því fram að Krónan hafi fórnað hagsmunum viðskiptavina sinna til að forða Krónunni frá hugsanlegri skaðabótaskyldu.  

Við sjáum það núna í ljósi þessa hörmulega máls að Krónan þarf að gera ítarlegri kröfur á þá sem reka sjálfstæð veitingarými innan verslana varðandi upplýsingagjöf úr niðurstöðum Heilbrigðiseftirlitsins. Krónan mun gera þessar niðurstöður sýnilegar viðskiptavinum staðanna þannig að öllum verði ljóst áður en þeir versla á viðkomandi stöðum hvaða einkunn þeir fá frá Heilbrigðiseftirlitinu. Krónan fagnar auknu gagnsæi og hvetur aðrar matvöruverslanir, mathallir og veitingastaði til að gera slíkt hið sama. 

Hagsmunir viðskiptavina Krónunnar hafa verið og verða ávallt í fyrirrúmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert