500 tjónatilkynningar og allt að 75 altjón

Sex tilkynningar hafa borist vegna tjóns á veitukerfum en umfang …
Sex tilkynningar hafa borist vegna tjóns á veitukerfum en umfang þess tjóns liggur ekki fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) hafa borist um 500 tilkynningar um tjón í Grindavík frá því atburðir hófust þar 10. nóvember. Altjón á húsnæði gætu verið allt að 75 talsins. Þá kemur fram að einhverjar tilkynningar hafi verið sendar inn oftar en einu sinni og ein tilkynning vegna nokkurra mála.

Mál sem krefjast meðferðar af hálfu Náttúruhamfaratryggingar Íslands eru því samtals 474.

Tjónamati er lokið í 196 málum, úrvinnsla matsmanna er hafin í 217 málum en 61 mál bíður tjónaskoðunar samkvæmt tilkynningu frá NTÍ.

Lágar bótafjárhæðir í hlutatjónsmálum

Bótafjárhæðir vegna hlutatjóns liggja nú fyrir í 112 málum og er unnið að kynningu þeirra mála fyrir eigendum.

Af þeim eru 102 hlutatjónsmál vegna íbúðarhúsnæðis þar sem heildarbótafjárhæð er samtals um 180 milljónir króna, eða að meðaltali um 1,8 milljónir í hverju máli. 

Búið er að meta 10 hlutatjónsmál vegna atvinnuhúsnæðis þar sem heildarbætur nema samtals 46 milljónum króna, eða um 4,6 milljónum að meðaltali í hverju máli.

Búist við altjóni á 70 húseignum

Endanlegur fjöldi altjónshúsa liggi ekki fyrir en að óbreyttu megi búast við að þau verði á bilinu 70 til 75. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/02/17/gengid_naerri_sjodum_nti_ef_radherra_nytir_heimild/

Uppgjör vegna altjóns á húseignum eru hafin í 62 málum, þar af eru 34 vegna íbúðarhúsnæðis þar sem heildarbótafjárhæð er um 2,4 milljarðar króna og 28 vegna atvinnuhúsnæðis þar sem heildarbótafjárhæð er um 3,4 milljarðar króna.

Tilkynningar vegna húseigna skiptast þannig að 335 eru vegna íbúðarhúsnæðis og 79 vegna atvinnuhúsnæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert