Aðkoma DEA hljóti að byggja á grun

Davíð Viðarsson, áður Quang Lé, verður að sögn dr. Helga …
Davíð Viðarsson, áður Quang Lé, verður að sögn dr. Helga Gunnlaugssonar lykillinn að för víetnamska starfsfólksins til Íslands og gylli landið í augum þess. Samsett mynd

„Aðstoð að utan þarf ekki að koma okkur á óvart,“ segir dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um liðsauka frá bandarísku alríkisfíkniefnalögreglunni DEA sem var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til fulltingis í umfangsmiklu og nýuppkomnu máli þar sem mansal, peningaþvætti og skipulögð glæpastarfsemi er til rannsóknar.

Segir Helgi brotin af ýmsu tagi auk þess sem aðilar málsins reki uppruna sinn til fjarlægra slóða heimsins. „Við höfum ekki mikla reynslu af mansalsmálum og alls ekki af þessum skala og eðlilegt að leita aðstoðar erlendis frá,“ segir prófessorinn.

Aðstoð vegna tungumálsins og menningarmunar milli Íslendinga og Víetnama sé einnig mikilvæg, en eins og fram kemur í máli Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns í viðhlekkjaðri frétt hér að ofan bauðst lögreglunni aðstoð sem hún þáði, annar fulltrúanna frá DEA, sem landið heimsóttu, talar að sögn Gríms víetnömsku sem hafi reynst hjálplegt. Aðstoð erlendu fulltrúanna hafi verið að frumkvæði íslenskra lögregluyfirvalda, ekki þeirra bandarísku.

Dr. Helgi Gunnlaugsson segir milliliðina fitna eins og púkann á …
Dr. Helgi Gunnlaugsson segir milliliðina fitna eins og púkann á fjósbitanum í mansalsmálum á borð við það sem hér er til umræðu, um sé að ræða þekkt mynstur í flutningi fólks milli þriðja heimsins og vel stæðra Vesturlanda. mbl.is/Árni Sæberg

Lengi leitað í smiðju Bandaríkjamanna

Helgi segir heppilegt að aðstoð á borð við þessa komi að utan í stað þess að lögregla þurfi að reiða sig á samfélag Víetnama á Íslandi. „Að leita til Bandaríkjanna og DEA vekur þó athygli. Aðstoð frá Norðurlöndum eða annars staðar frá í Evrópu virkar nær okkur og tengslin hafa verið nánari við þann heimshluta í löggæslumálum,“ segir prófessorinn.

„Við höfum samt lengi verið í samstarfi við bandarísk stjórnvöld og leitað í smiðju þeirra varðandi brotastarfsemi, ekki síst á sviði fíkniefna,“ bætir hann við og komi samstarfið ekki á óvart sé það skoðað í því ljósi. Mestu skipti þó að samstarfið sé á grundvelli íslenskra laga og á forsendum íslenskrar löggæslu en ekki bandarískrar.

„Að leita til bandarísku fíkniefnalögreglunnar hlýtur að byggja á einhverjum grun um starfsemi af því tagi í tengslum við þetta mál, ef ekki á hún varla heima í þessari rannsókn. Þetta verður þó að koma betur í ljós,“ segir Helgi.

Hvað með mansal eins og það virðist liggja fyrir í þessu máli og þá tengingu við skipulagða glæpastarfsemi sem þarna virðist vera augljós?

„Mansal hefur löngum verið tengt meira við kynlífssölu, ekki almennt vinnumansal og flutning fólks milli landa og heimshluta í búsetu- og atvinnuskyni,“ svarar Helgi. Margt bendi til þess að mansal af þessu tagi sé jafnvel mun stærra en mansal er snúist um vændi, þetta mál sýni svo óyggjandi sé umfangið og hið margslungna eðli mansals.

Gyllir Ísland í augum fólks

„Hér höfum við þjóð og heimshluta þar sem mikil fátækt ríkir og möguleikar takmarkaðir og svo heimshlutann okkar þar sem smjör er álitið drjúpa af hverju strái. Davíð [Viðarsson, áður Quang Lé] verður lykillinn að för þeirra hingað, gyllir Ísland í augum fólksins, lítur væntanlega á sig sem velgjörðarmann þeirra, bjargar þeim úr neyðinni en færir sér neyðina sér í hag,“ heldur hann áfram.

Málið kom fyrst upp í tengslum við matvælalager sem talið …
Málið kom fyrst upp í tengslum við matvælalager sem talið er að hafi verið til húsa í Sóltúni 20 í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar sé um að ræða þekkt mynstur í flutningi fólks milli þriðja heimsins og hinna vel stæðu Vesturlanda, milligöngumennirnir komi frá hvorum tveggja, Vesturlöndum og hinum fátækari þjóðum.

„Ódýrt vinnuafl, bágborið húsnæði, við þekkjum þetta vel, eiginlega nútímaþrælahald. Milliliðirnir fitna eins og púkinn á fjósbitanum og örðugt fyrir yfirvöld að sporna við. Kemur ójafnvægi á markaðinn, hægt er að undirbjóða reksturinn og erfitt fyrir aðra aðila að keppa við á löglegan hátt,“ segir dr. Helgi Gunnlaugsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka