Aðkoma DEA hljóti að byggja á grun

Davíð Viðarsson, áður Quang Lé, verður að sögn dr. Helga …
Davíð Viðarsson, áður Quang Lé, verður að sögn dr. Helga Gunnlaugssonar lykillinn að för víetnamska starfsfólksins til Íslands og gylli landið í augum þess. Samsett mynd

„Aðstoð að utan þarf ekki að koma okk­ur á óvart,“ seg­ir dr. Helgi Gunn­laugs­son, pró­fess­or í af­brota­fræði við Há­skóla Íslands, í sam­tali við mbl.is um liðsauka frá banda­rísku al­rík­is­fíkni­efna­lög­regl­unni DEA sem var lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu til fullting­is í um­fangs­miklu og ný­upp­komnu máli þar sem man­sal, pen­ingaþvætti og skipu­lögð glæp­a­starf­semi er til rann­sókn­ar.

Seg­ir Helgi brot­in af ýmsu tagi auk þess sem aðilar máls­ins reki upp­runa sinn til fjar­lægra slóða heims­ins. „Við höf­um ekki mikla reynslu af man­sals­mál­um og alls ekki af þess­um skala og eðli­legt að leita aðstoðar er­lend­is frá,“ seg­ir pró­fess­or­inn.

Aðstoð vegna tungu­máls­ins og menn­ing­armun­ar milli Íslend­inga og Víet­nama sé einnig mik­il­væg, en eins og fram kem­ur í máli Gríms Gríms­son­ar yf­ir­lög­regluþjóns í viðhlekkjaðri frétt hér að ofan bauðst lög­regl­unni aðstoð sem hún þáði, ann­ar full­trú­anna frá DEA, sem landið heim­sóttu, tal­ar að sögn Gríms víet­nömsku sem hafi reynst hjálp­legt. Aðstoð er­lendu full­trú­anna hafi verið að frum­kvæði ís­lenskra lög­reglu­yf­ir­valda, ekki þeirra banda­rísku.

Dr. Helgi Gunnlaugsson segir milliliðina fitna eins og púkann á …
Dr. Helgi Gunn­laugs­son seg­ir milliliðina fitna eins og púk­ann á fjós­bit­an­um í man­sals­mál­um á borð við það sem hér er til umræðu, um sé að ræða þekkt mynstur í flutn­ingi fólks milli þriðja heims­ins og vel stæðra Vest­ur­landa. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Lengi leitað í smiðju Banda­ríkja­manna

Helgi seg­ir heppi­legt að aðstoð á borð við þessa komi að utan í stað þess að lög­regla þurfi að reiða sig á sam­fé­lag Víet­nama á Íslandi. „Að leita til Banda­ríkj­anna og DEA vek­ur þó at­hygli. Aðstoð frá Norður­lönd­um eða ann­ars staðar frá í Evr­ópu virk­ar nær okk­ur og tengsl­in hafa verið nán­ari við þann heims­hluta í lög­gæslu­mál­um,“ seg­ir pró­fess­or­inn.

„Við höf­um samt lengi verið í sam­starfi við banda­rísk stjórn­völd og leitað í smiðju þeirra varðandi brot­a­starf­semi, ekki síst á sviði fíkni­efna,“ bæt­ir hann við og komi sam­starfið ekki á óvart sé það skoðað í því ljósi. Mestu skipti þó að sam­starfið sé á grund­velli ís­lenskra laga og á for­send­um ís­lenskr­ar lög­gæslu en ekki banda­rískr­ar.

„Að leita til banda­rísku fíkni­efna­lög­regl­unn­ar hlýt­ur að byggja á ein­hverj­um grun um starf­semi af því tagi í tengsl­um við þetta mál, ef ekki á hún varla heima í þess­ari rann­sókn. Þetta verður þó að koma bet­ur í ljós,“ seg­ir Helgi.

Hvað með man­sal eins og það virðist liggja fyr­ir í þessu máli og þá teng­ingu við skipu­lagða glæp­a­starf­semi sem þarna virðist vera aug­ljós?

„Man­sal hef­ur löng­um verið tengt meira við kyn­lífs­sölu, ekki al­mennt vinnum­an­sal og flutn­ing fólks milli landa og heims­hluta í bú­setu- og at­vinnu­skyni,“ svar­ar Helgi. Margt bendi til þess að man­sal af þessu tagi sé jafn­vel mun stærra en man­sal er snú­ist um vændi, þetta mál sýni svo óyggj­andi sé um­fangið og hið marg­slungna eðli man­sals.

Gyll­ir Ísland í aug­um fólks

„Hér höf­um við þjóð og heims­hluta þar sem mik­il fá­tækt rík­ir og mögu­leik­ar tak­markaðir og svo heims­hlut­ann okk­ar þar sem smjör er álitið drjúpa af hverju strái. Davíð [Viðars­son, áður Quang Lé] verður lyk­ill­inn að för þeirra hingað, gyll­ir Ísland í aug­um fólks­ins, lít­ur vænt­an­lega á sig sem vel­gjörðarmann þeirra, bjarg­ar þeim úr neyðinni en fær­ir sér neyðina sér í hag,“ held­ur hann áfram.

Málið kom fyrst upp í tengslum við matvælalager sem talið …
Málið kom fyrst upp í tengsl­um við mat­vælala­ger sem talið er að hafi verið til húsa í Sól­túni 20 í Reykja­vík. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Þar sé um að ræða þekkt mynstur í flutn­ingi fólks milli þriðja heims­ins og hinna vel stæðu Vest­ur­landa, milli­göngu­menn­irn­ir komi frá hvor­um tveggja, Vest­ur­lönd­um og hinum fá­tæk­ari þjóðum.

„Ódýrt vinnu­afl, bág­borið hús­næði, við þekkj­um þetta vel, eig­in­lega nú­tímaþræla­hald. Milliliðirn­ir fitna eins og púk­inn á fjós­bit­an­um og örðugt fyr­ir yf­ir­völd að sporna við. Kem­ur ójafn­vægi á markaðinn, hægt er að und­ir­bjóða rekst­ur­inn og erfitt fyr­ir aðra aðila að keppa við á lög­leg­an hátt,“ seg­ir dr. Helgi Gunn­laugs­son að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert