Heilbrigðiseftirlitinu ber ekki skylda til að upplýsa eigendur húsnæðis um niðurstöður úr eftirliti hjá rekstraraðila í viðkomandi húsnæði. Eigendur húsnæðis eiga að hafa næg úrræði til að afla sér upplýsinga frá matvælafyrirtæki í sínu rými.
Þetta segir Tómas G. Gíslason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við gagnrýni Ástu S. Fjeldsted, forstjóra Festi, á upplýsingagjöf frá heilbrigðiseftirlitinu.
„Við höfum treyst á eftirlitsstofnanir, líkt og heilbrigðiseftirlitið, til að hafa umsjón með því að öllum tilskildum verkferlum, leyfum og fyrirkomulagi á framleiðslu og veitingasölu sé fylgt eftir í takt við útgefið starfsleyfi. Okkur blöskraði því að Wok On fengi að halda rekstri áfram eftir þessa einkunn sem kom um daginn og ekki væri lokað þegar í stað,“ sagði Ásta í samtali við Morgunblaðið í gær í kjölfar þess að Krónan sleit leigusamningi sínum við veitingakeðjuna Wok On.
Gagnrýni Ástu snýr að eftirliti sem heilbrigðiseftirlitið sinnti á matsölustöðum Wok On sem meðal annars voru staðsettir í þremur Krónuverslunum. Eftirlitið átti sér stað í nóvember en Ásta kveðst ekki hafa séð skýrslur eftir úttektir eftirlitsins fyrr en í kjölfar aðgerða lögreglu sem áttu sér stað á þriðjudag.
Aðgerðirnar beindust meðal annars gegn Davíð Viðarsyni, áður Quang Lé, eiganda Wok On.
„Krónan eins og almenningur hefur upplýsingar á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins. Það er ekki hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að upplýsa eigendur húsnæðis um rekstraraðila í viðkomandi húsnæði,“ segir Tómas og bætir við:
„Ekki frekar en að við upplýsum rekstraraðila Kringlunnar um niðurstöður úr eftirliti þar. Eigandi húsnæðis hefur aðrar leiðir til að fylgjast með aðilum sem leigja rými hjá þeim og Krónan á að hafa næg úrræði til að afla sér nauðsynlegra upplýsinga frá matvælafyrirtækjum í sínu rými.“
Aðspurður segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, það fara eftir eðli skýrslunnar hversu langur tími líður frá því að farið er í eftirlit og þar til skýrslan hefur verið birt á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins. Það fari jafnframt eftir eðli starfseminnar.
Til útskýringar segir Tómas það taka mislangan tíma að ganga frá hverri skýrslu eftir umfangi fyrirtækisins og skýrslunnar, auk þess sem fyrirtækin fá fjórtán daga andmælarétt samkvæmt lögum til að gera athugasemdir við skýrsluna.
Þannig að ef það er ljóst að veitingastaður fær falleinkunn þá gæti neytandinn verið að borða þar, eða nota þjónustu, í að minnsta kosti fjórtán daga áður en hann getur leitað eftir upplýsingum um staðinn á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur?
„Nei alls ekki. Við förum ekki frá neinum stað sem við teljum að sé hættulegur fyrir neytandann,“ segir Óskar og Tómas útskýrir að í þeim tilfellum sé brugðist við á staðnum og komið í veg fyrir þá áhættu.
Spurðir hvort það sé til skoðunar að gera breytingar á upplýsingagjöf til rekstraraðila húsnæðis svarar Óskar því til að almennt sé alltaf verið að leita leiða til að gera vinnu heilbrigðiseftirlitsins gagnsærri með það að markmiði að almenningur sé betur upplýstur.
Tómas tekur í sama streng en áréttir að hann telji það aðgengi sem fólk hefur í gegnum heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur mjög gott, „en það er ekki útilokað að það verði tekið enn þá lengra“.