Fordómar á Íslandi að koma upp á yfirborðið

Dósent í félags-og afbrotafræði segir að fordómar á Íslandi séu …
Dósent í félags-og afbrotafræði segir að fordómar á Íslandi séu farnir að láta meira á sér bera. Samsett mynd

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði, telur ekki ólíklegt að Íslendingar séu að verða opinskárri með fordóma sína í garð innflytjenda og minnihlutahópa. 

Vakti það mikla furðu og reiði í vikunni að íbúi í Hraunbæ flaggaði stærðarinnar nasistafána í glugga í blokkaríbúð. Margrét segir það vissulega ekki hafa tíðkast hingað til í íslensku samfélagi að auglýsa slíkar skoðanir en eitthvað hafi breyst nýlega. 

„Ég þekki sjálf fólk í Kópavogi sem hringdi í lögreglu vegna hakakross í glugga fyrir svona hálfu ári síðan,“ segir Margrét en í kjölfar umfjöllunar um fánann í Hraunbæ hefur mbl.is einnig borist mynd úr Breiðholtinu þar sem upplýstur hakakross hékk í glugga í febrúar. 

Auknir fordómar í garð gyðinga og múslíma

Spurð hvort hún telji atvik sem þessi merki um aukna gyðingaandúð segir Margrét átökin fyrir botni Miðjarðarhafs óneitanlega hafa haft víðtæk áhrif. 

„Ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað formlega hér en þessi stríðsátök eru að hafa mjög víðtæk áhrif bæði... já auknir fordómar og andúð í garð gyðinga en líka auknir fordómar og andúð í garð múslíma og Palestínufólks.“ 

Hún kveðst ekki vita til þess að mikið hafi borið á gyðingaandúð á Íslandi síðan í kringum seinni heimsstyrjöldina, enda sé gyðingasamfélagið á Íslandi ekki mjög stórt. 

„En svona á síðustu áratugum þá veit ég ekki til þess, ég þekki það ekki og hef aldrei heyrt um þetta áður á Íslandi.“

Hún segir þó eflaust hafa bólað á slíkum viðhorfum undir yfirborðinu, en nú virðist sem orðræðan sé að færast í aukana, einkum þar sem fólk verði vitni af skoðanasystkinum sínum á samfélagsmiðlum sem lækki eflaust þröskuldinn fyrir því hvað fólk sé tilbúið til þess að segja opinberlega. 

Til að mynda hafi slík orðræða komið í ljós í athugasemdum á samfélagsmiðlum í tengslum við Söngvakeppni Sjónvarpsins, sem sum hver hafi verið mjög gróf í garð palestínska söngvarans Bashar Murad og útlendinga almennt.

Hakakross í Breiðholtinu, Myndin er tekin í febrúar á þessu …
Hakakross í Breiðholtinu, Myndin er tekin í febrúar á þessu ári. Ljósmynd/Aðsend

Fólk í samfélaginu sem upplifir innflytjendur sem ógn

Spurð hvort aukin hatursorðræða og birtingarmyndir líkt og nasistafáninn séu að farin að láta meira á sér bera segir Margrét svo virðast vera þó ekki séu til langtímamælingar um slíkt hér á landi.

Ef svo reynist sé það aftur á móti í takt við þróun á undanförnum árum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Þar sýni kannanir að viðhorf í garð innflytjenda og minnihlutahópa fari versnandi í takt við aukinn innflutning fólks.

„Það sem gerist þá er að það sem hefur kannski legið undir yfirborðinu fer að koma upp. Það er bara fólk í okkar samfélagi sem upplifir innflytjendur sem einhverskonar ógn.“

Hún segir það þekkt víða að fólk hafi ýmsar fyrirframgefnar hugmyndir um innflytjendur, þá sérstaklega frá ákveðnum heimshlutum. Það sé oft á tíðum fólk sem þegar sé í veikari stöðu innan eigin samfélags og upplifi því fólk úr ólíkum menningarheimum sem ógn. 

Fólk óttist neikvæð áhrif á starfsöryggi, velferðarkerfið, menningarlega sjálfsmynd landsins og aukna glæpatíðni. Sú þurfi þó alls ekki að vera raunin.

„Bara t.d. á Íslandi þá hefur fjölgun á innflytjendum verið jákvæð fyrir okkar efnahagslíf,“ segir Margrét og bætir við að fylgni glæpa og innflytjenda sé mismunandi eftir löndum.

„Það er ekki þannig að þau lönd þar sem að hlutfall innflytjenda sé hæst að það séu sömu lönd og hafi flesta glæpi.“

Margrét Valdimarsdóttir, Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðingur og doktor í afbrotafræði.
Margrét Valdimarsdóttir, Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðingur og doktor í afbrotafræði. mbl.is/Golli

Mikilvægt að leyfa fólki að eiga í opnu samtali

Segir Margrét það í flestum tilfellum velta á því hvort inngilding innflytjenda hafi gengið vel. Gríðarlega mikilvægt sé að geta átt samtöl um hluti sem þessa í samfélaginu og ekki loka á opna umræðu. Það sé einungis olía á eldinn. 

„Það er alveg rétt að nasistafáni í glugga er eitthvað sem við verðum að fordæma en við verðum líka að leyfa fólki í okkar samfélagi að eiga í opnu samtali. Svo það sé hægt að spyrja spurninga eins og: „Bíddu hvaða þýðingu hefur það fyrir mig að innflytjendum sé að fjölga.“

Hún segir það alls ekki furðulegt að fólki þyki stafa ógn af nýbúum á Íslandi, sérstaklega þegar fari að bera á málum tengdum þeim í fréttum. 

„En maður þarf líka að muna að innflytjendur eru bara orðin nokkuð stór hluti af íslensku samfélagi og það væri skrítið ef það væru ekki að koma upp mál sem tengjast innflytjendum hér.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert